Enski boltinn

Chelsea verður meistari með sigri í kvöld | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea getur tryggt sér sjötta Englandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með sigri á West Brom á The Hawthornes í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Chelsea er sjö stigum á undan Tottenham þegar bæði lið eiga þrjá leiki eftir. Lærisveinar Antonios Conte eru með pálmann í höndunum og dugir einn sigur úr síðustu þremur leikjunum til að tryggja sér titilinn.

Eftir tapið fyrir Manchester United á Old Trafford setti Chelsea í fluggírinn og hefur unnið síðustu þrjá leiki sína með markatölunni 10-2.

West Brom hefur gefið mikið eftir að undanförnu og aðeins náð í tvö stig í síðustu sex leikjum sínum. Liðið situr í 8. sæti deildarinnar.

Í hinum leik kvöldsins, sem hefst klukkan 18:45, mætast Everton og Watford á Goodison Park.

Everton hefur gengið allt í haginn á heimavelli í vetur. Strákarnir hans Ronalds Koeman hafa unnið 12 af 18 leikjum sínum á Goodison Park og náð í 40 stig þar. Með sigri í kvöld slær Everton stigamet félagsins á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni.

Everton er í 7. sæti deildarinnar og endar þar sama hvernig síðustu tveir leikir liðsins fara.

Watford er í 15. sætinu en liðið hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum með markatölunni 0-6.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×