Íslenski boltinn

Breiðablik vildi ekki selja Damir til FH

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Damir hefur verið einn besti miðvörður Pepsi-deildarinnar undanfarin tvö ár.
Damir hefur verið einn besti miðvörður Pepsi-deildarinnar undanfarin tvö ár. vísir/hanna
FH reyndi að kaupa miðvörðinn Damir Muminovic af Breiðabliki. Þetta staðfesti Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.

FH er í miðvarðaleit en eins og staðan er í dag er Bergsveinn Ólafsson eini heili miðvörðurinn í leikmannahópi liðsins. Kassim Doumbia er meiddur og Pétur Viðarsson ekki enn kominn til landsins.

FH gerði því tilboð í Damir sem hefur verið einn besti varnarmaður Pepsi-deildarinnar undanfarin tvö ár.

„Þeir buðu í hann en við höfum ekki í hyggja að selja leikmenn úr varnarlínunni okkar. Við höfum frekar verið að leita leiða til að styrkja hana," sagði Eysteinn við Fótbolta.net.

FH reyndi einnig að fá Tobias Salquist, sem spilaði með Fjölni í fyrra, en ólíklegt þykir að hann komi til Fimleikafélagsins. Þá var skoski miðvörðurinn Kyle Cameron á reynslu hjá Íslandsmeisturunum.

FH mætir Val í stórleik 3. umferðar Pepsi-deildarinnar á mánudaginn, sama dag og félagaskiptaglugginn lokar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×