Enski boltinn

Hazard dreymir um Gullboltann og stefnir á fullkomið ár 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard.
Eden Hazard. Vísir/Samsett/Getty
Eden Hazard hefur átt frábært tímabil með Chelsea sem getur í kvöld tryggt sér enska meistaratitilinn með sigri á West Bromwich Albion.

Hazard viðurkennir í samtali við Sky Sports að hann sé með augun á Gullboltanum sem besti leikmaður heims fær alltaf árlega.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo eru líklegastir til að vinna Gullboltann fyrir árið 2017 en annaðhvort þeirra hefur verið handhafi hans frá og með árinu 2008.

Leikmenn í enska boltanum hafa ekki verið mikið inn í myndinni síðustu ár enda hefur Gullboltinn alltaf endað á Spáni. Hazard er samt sannfærður um að leikmaður í ensku deildinni geti unnið hann.

„Ég vonast til að vinna Gullboltann einhvern daginn. Ég er að hugsa um þann möguleika en ef það tekst ekki þá er það allt í lagi. Ég reyni að eiga eins góðan feril og ég get en veit að það eru líka aðrir leikmenn sem eiga skilið að fá Gullboltann,“ sagði Eden Hazard við Sky Sports.

„Þegar Ronaldo og Messi leggja skóna á hilluna þá munu kannski menn eins og Neymar, Paulo Dybala eða Antoine Griezmann bítast um hann. Hver veit? Við verðum bara að sjá til. Þetta er ekki eitthvað sem ég hugsa of mikið um,“ sagði Hazard.

„Get ég unnið Gullboltann? Ef ég spila vel á næsta tímabili, Chelsea vinnur Meistaradeildina og ég verð heimsmeistari með Belgíu. Af hverju ekki,“ sagði Eden Hazard og það er ljóst að hann hefur sett markmiðið hátt á næsta ári.

„Undanfarin tíu ár hefur leikmaðurinn sem fékk Gullboltann spilað á Spáni en það á ekki að vera sjálfkrafa. Ef leikmaður á Englandi spilar betur þá mun hann vinna,“ sagði Hazard.  Þetta gæti orðið mjög gott kvöld fyrir Hazard og félaga í Chelsea.

„Við viljum fagna í kvöld en svo viljum við koma til baka á Stamford Bridge og fagna með stuðningsfólki okkar. Við verðum bara að vinna leikinn og ef það tekst þá vitum við að við verðum enskir meistarar. Það er kannski mikil pressa á okkur en við erum næstum því komnir í mark,“ sagði Hazard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×