Lífið

Heimurinn er endalaust fagur

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Hjólafærni hefur um árabil unnið með alls konar hjól; tandem, rickshaw og cargo bike. Valið hefur verið að kalla þau einu nafni nytjahjól á íslensku. Snata hennar Sesselju finnst best að vera í kassanum á svarta hjólinu. 
Hjólafærni hefur um árabil unnið með alls konar hjól; tandem, rickshaw og cargo bike. Valið hefur verið að kalla þau einu nafni nytjahjól á íslensku. Snata hennar Sesselju finnst best að vera í kassanum á svarta hjólinu.  MYND/GVA
Sesselja Traustadóttir er hugsjónakona af lífi og sál þegar kemur að hjólamenningu Íslendinga. Hún hefur líka lagt veigamikil og þung lóð á vogarskálar hjólreiðafólks og er hvergi hætt.



„Hjól geta komið inn á svo ótrúlega marga og skemmtilega vinkla og þau tengja fólk svo fallega saman,“ segir Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni sem er fræðasetur um samgöngur hjólreiðamanna.



Sesselja hefur brennandi áhuga á hjólamenningu og hafa hugsjónir hennar valdið straumhvörfum í hjólamennsku landsmanna. Nýlegt dæmi er samstarf Hjólafærni, Rauða krossins og Barnaheilla um hjól fyrir hælisleitendur, en því lauk nú í vikunni.

„Þar gerðu hælisleitendur upp gömul hjól fyrir sjálfa sig og þegar kunnátta og verklag var fengið gerðu þeir upp notuð hjól fyrir börn sem fá úthlutuð hjól frá Barnaheillum. Þetta var stórsnjallt og uppbyggjandi verkefni fyrir hælisleitendur sem þrá að hafa eitthvað fyrir stafni á meðan þeir bíða svars frá stjórnvöldum,“ segir Sesselja sem leitar nú leiða til að láta verkefnið lifa áfram enda snertir það og gleður alla sem að því koma.

Annað dásamlegt verkefni sem Hjólafærni kom á fót er Hjólað óháð aldri og hefur að markmiði að gefa öldruðum tækifæri á að koma út í samfélagið og fá vind í vangann.

„Hjólin eru léttivagnar (e. rick­shaw) og með sæti fyrir farþega framan á hjólinu. Þau eru rafknúín þannig að allir geta hjólað á þeim og gamla fólkið elskar að komast út undir bert loft og fara á svolítið flakk á hjólunum. Það er líka yndislegt að heyra sögurnar, eins og af blindum sem njóta þess að fá vind í vangann og finna angan af sumri og sól,“ segir Sesselja en hjól af þessu tagi eru nú í eigu margra hjúkrunar- og öldrunarheimila víða um land.

„Allt er það tilkomið vegna safnana, eins og á Ísafirði þar sem unglingar í 10. bekk stóðu fyrir söfnun fyrir veikan kennara sinn en þegar hann féll frá ánöfnuðu þau féð til kaupa á léttivagni fyrir gamla fólkið. Heimurinn er endalaust fagur og sjálfa dreymir mig um að fá menntaskólakrakka sem finna til vanlíðunar til að fara út að hjóla með gamla fólkinu, því ég veit að sums staðar vantar mannskap og drifkraft til að nota hjólin. Mér finnst svo heilbrigt að tengja saman kynslóðir og bæta líðan allra í leiðinni,“ segir Sesselja. Þess má geta að Bakarameistarinn styður verkefnið Hjólað óháð aldri og býður upp á kaffi og með því þegar komið er við í bakaríinu í hjólatúrum aldraðra.

Guð og hjólamenningin

Straumhvörf urðu í hjólreiðamenningu Íslendinga eftir bankahrunið 2008 en þá segir Sesselja að markviss umræða og vinna með hjólafærni hafi farið af stað.

„Þegar Guð blessaði Ísland opnuðust gáttir, hlutirnir fóru að rúlla og Ísland hjólavæddist. Við lögðum mikla áherslu á þá hugsun að það sé gott að hjóla og með því að þétta byggð getum við ferðast öruggar um svæði borgarinnar, án þess að vera á bíl. Um leið leggjum við annað verðmat á landrými en að gera það að bílastæði.“

Margt hefur áunnist sem Sesselja gleðst yfir þegar litið er yfir farinn veg.

„Það er skemmtilegt í dag að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tala betur saman og eru að setja á laggirnar merktar lykilleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka ánægjulegt að farandráðstefna sem við fórum af stað með 2011, Hjólum til framtíðar, fer enn á milli sveitarfélaganna. Mér finnst líka mjög gott að það er rætt um hjólreiðar í dag út frá fleiru en því hvort fólk noti hjálm eður ei. Svo er dásamlegt að kominn sé lykilstígur á Suðurlandsbraut sem tengir saman hverfin 101, 105 og 108. Það hefur sýnt hvernig einn hjólastígur getur þétt byggð og auðveldað samgöngur um borgina. Þá eru ótalin lykilmannvirki sem breytt hafa miklu, eins og brýr yfir Elliðaárnar, sem eru ekki færar öðrum en gangandi og hjólandi vegfarendum um fegurstu staði borgarinnar.“

En í hverju felst hjólafærni hins hjólandi manns?

„Hjólafærni er alls ekki flókin. Það þarf bara að minna á hana. Hún snýst um að gera sig sýnilegan og taka öryggisrými í umferðinni. Hún gerir ráð fyrir því að taka tillit til aðstæðna, hjóla í samræmi við aðstæður og að vera í samstarfi við aðra vegfarendur, bæði gangandi og akandi. Við hjólreiðamenn notum augnsamband og höfuðið svo að ökumenn viti hvað við erum að hugsa og gömlu, góðu merkin að rétta hendur út eða upp ef við ætlum að beygja eða bremsa.“

Meðal annarra verkefna Hjólafærni er hjólaferðamennska, umhverfismál og almenningssamgöngur í landinu, ásamt vinnustaðavottun og Dr. Bæk sem stendur fyrir fræðslu og ástandsskoðun hjóla.

„Dr. Bæk er útvörður Hjólafærni og sívinsæll hjá starfsmanna- og foreldrafélögum og í vor hefur hann líka verið á bókasöfnum og sundstöðum. Þá kemur fólk með hjól sín og fær leiðsögn um hvað þarf að vera í lagi til að hjólinu líði vel, eins og réttur loftþrýstingur, smurning og bremsur.“

Sesselja bendir á vefinn bikemaps.is þar sem hjólandi vegfarendur eru beðnir um að skrá niður staði í borginni þar sem hlutir eru í ólagi. Frá því að vefurinn var settur á laggirnar hafa borist yfir 200 ábendingar á höfuðborgarsvæðinu sem verða sendar til úrvinnslu til sveitarfélaganna.

Allt um starf Hjólafærni á hjola­faerni.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×