Lífið

Gott lag og heppni lykillinn að sigri

"Svala stóð sig með stakri prýði, flutti lagið vel og gerði sitt allra besta, en þessi keppni er þannig að maður veit í rauninni aldrei hvernig atkvæðin raðast."
"Svala stóð sig með stakri prýði, flutti lagið vel og gerði sitt allra besta, en þessi keppni er þannig að maður veit í rauninni aldrei hvernig atkvæðin raðast." MYND/EYÞÓR
Undanfarin sextán ár hefur Jónatan verið liðsstjóri íslensku Eurovision-keppendanna og fylgst með keppninni baksviðs. Í kvöld ætlar hann að horfa á keppnina í rólegheitum heima hjá sér, ásamt fjölskyldunni.

„Ég kom fyrst að Eurovision þegar ég var í vinnuhópi sem hvatti til þess að við Íslendingar tækjum þátt í keppninni. Síðan var ég útgefandi íslensku Eurovisionlaganna og frá 2001-2016 var ég liðsstjóri íslensku keppendanna. Mér fannst algjörlega orðið tímabært að stíga til hliðar og Felix Bergsson var tilbúinn að taka við keflinu. Hann var mér til aðstoðar í fyrra og sá þá hvað hann þurfti að læra og kunna.“

En hvað skyldi standa upp úr þegar hann lítur til baka? „Fyrst og fremst allt fólkið sem ég hef unnið með í gegnum tíðina, allt prýðisfólk. Stundum hefur þetta verið mikill tilfinningarússíbani, ég hef tekið sumt inn á mig, bæði gleði og svo minni gleði, stundum nánast sorg, en alltaf haft fagmennskuna að leiðarljósi.“

Töfrar á úrslitakvöldinu

Jónatan er nýkominn heim úr fríi frá New York og hefur því ekki fylgst grannt með undankeppninni en hann segist þó vel vita hvað sé að gerast. En hver er líklegasti sigurvegarinn að hans mati?

„Eins og staðan er núna spái ég Portúgal, Búlgaríu eða Ítalíu sigri en svo getur allt breyst í kvöld. Stundum finnur maður þetta fyrirfram en svo verða einhverjir töfrar í salnum á úrslitakvöldinu. Þetta eru ólík lög, fyrri tvö eru róleg en þriðja er meira stuðlag. Það fer alveg eftir stemningunni í Evrópu í kvöld hvaða lag vinnur. Svo er kannski eitthvert lag þarna sem ég hef ekki tekið eftir sem getur skotist upp og farið í fyrsta sætið. Það væri reyndar gaman ef Portúgal ynni. Þeir hafa átt í fjárhagskröggum eins og við og drógu sig út úr keppninni og ætluðu alveg að hætta en koma svo með þetta lag, sem hefur vakið mikla athygli. Söngvarinn syngur af einlægni og ef hann nær í gegn er aldrei að vita hvað gerist."

Hér er Jónatan í Belgrad í Serbíu eftir að Euroband, Regína Ósk og Friðrik Ómar, komust í úrslit. Ísland hafði ekki náð þeim árangi í þrjú ár þar á undan.
Svala stóð sig með prýði

Svo skemmtilega vill til að Jónatan og Svala Björgvinsdóttir eiga sama afmælisdag. Hann segist ekki vita hvers vegna hún komst ekki áfram. „Svala stóð sig með stakri prýði, flutti lagið vel og gerði sitt allra besta, en þessi keppni er þannig að maður veit í rauninni aldrei hvernig atkvæðin raðast. Eflaust má velta upp ýmsum flötum á myndvinnslunni, sviðsetningunni og hinu og þessu, en einfalda svarið er að evrópska sveiflan var einfaldlega ekki með okkur að þessu sinni.“

Spurður hvort við þurfum að breyta einhverju varðandi forkeppnina hér heima til að komast í aðalkeppnina segir Jónatan að það þurfi alltaf að skoða alla fleti varðandi þessi mál.

„En það er ekki til nein töfraformúla. Svíar leggja gríðarlega vinnu og fjármuni í að leita að rétta laginu á hverju ári og það er her manna og kvenna sem vinnur að Melodifestivalen, sem er næstum því jafn viðamikil keppni og Eurovision. Þeir hafa sérhæft sig í að semja Eurovisionlög og sviðsetja þau, enda er það svo núna í ár að 10 lög í Eurovision eru eftir sænska höfunda og sænskir verkefnastjórar koma að sviðsetningu margra laga í keppninni. Þetta er fyrst og fremst gott sjónvarpsefni, góð afþreying sem maður á ekki að taka allt of alvarlega. Mér finnst alveg jafn mikilvægt að leyfa alls konar höfundum og flytjendum að láta ljós sitt skína í Söngvakeppninni hérna heima eins og að taka þátt í Eurovision. Þetta er einn af vaxtarsprotunum í okkar fjölbreytta tónlistarlífi og á hverju ári koma fram nýir höfundar og flytjendur sem fá ómetanlegt tækifæri til að spreyta sig í sjónvarpskeppni. Mikilvægast er að íslenska þjóðin sé sátt við það lag sem sent er í keppnina hverju sinni og standi heils hugar að baki sínum keppendum.“



“Við Jóhanna Guðrún og Helgi Jóhannesson upptökustjóri sjónvarpsins árið 2009. Þetta var merkileg ferð í alla staði og það sem stóð uppúr var þegar Jóhanna Guðrún eða Yohanna, hafnaði í öðru sæti keppninnar.”
Ekkert Eurovisonlag í uppáhaldi

Jónatan heldur ekki upp neitt eitt Eurovision lag umfram annað. „En ég man eftir tveimur sem mér fannst frábær á sínum tíma, annars vegar All Kinds of Everything með írsku söngkonunni Dana og hins vegar Waterloo með Abba. Af íslensku lögunum finnst mér mörg mjög vel heppnuð og sennilega standa lögin All Out of Luck og Is It True upp úr af þeirri einföldu ástæðu að þau komust bæði í annað sæti.“

Eurovision góð byrjun á sumrinu

Eurovison-keppnin hefur alla tíð verið sérlega vinsæl hérlendis og flestir landsmenn fylgst grannt með henni.

„Þegar við tókum þátt í Eurovision í fyrsta sinn voru miklar vonir bundnar við íslenskan sigur en þegar það gekk ekki eftir töluðu margir keppnina niður. Það hafði samt ekki þau áhrif að vinsældinar minnkuðu. Landsmenn komust fljótt upp á lag með að efna til samkvæma í heimahúsum þetta kvöld, þar sem vinir og vandamenn hittast til að njóta góðra veiga, horfa á keppnina og skiptast á skoðunum. Það hefur væntanlega líka sitt að segja að á hverju ári verður Euro­vision stærri í sniðum, með sífellt viðameiri sviðsbúnaði, ljósum, grafík og öllu sem hægt er að láta sér detta í hug að gera í einum sjónvarpsþætti. Margir segjast ekki horfa á keppnina, en vita samt sem áður allt um hana. Sennilega er þetta einfaldlega góð byrjun á sumrinu og kjörið tækifæri til að lyfta sér upp í góðra vina hópi eftir langan vetur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×