Lífið

Það gerir mig glaða að skauta

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ísold Fönn var sigursæl á skautamóti í ítölsku Ölpunum.  Mynd/Elísabet Kristjánsdóttir
Ísold Fönn var sigursæl á skautamóti í ítölsku Ölpunum. Mynd/Elísabet Kristjánsdóttir
Ísold Fönn er 10 ára og skarar fram úr í listhlaupi á skautum á evrópskan mælikvarða. Hún var mikið erlendis í vetur.  Hvenær skyldi hún hafa byrjað að æfa? Ég byrjaði fimm ára í hokký og fljótlega síðan í listskautum.

Hún á heima á Mörðudal á Fjöllum. Eru einhver vötn þar sem hún getur rennt sér á? Það er fullt af vötnum heima hjá mér á Möðrudal en ekki alltaf hægt að nota þau því þau eru ekki alltaf frosin eða slétt.

Hvað finnst þér best við skauta­íþróttina? Það gerir mig glaða að skauta og ég nýt lífsins þar.

Hvað hefur þú aðallega lært? Að halda jafnvægi í alls kyns æfingum, spinna og stökkva. Svo lærir maður líka að dansa og hlusta á tónlistina í takt við sporin.

Hvar hefur þú keppt erlendis og hvernig hefur gengið? Ég hef keppt í Ríga í Lettlandi, Búdapest í Ungverjalandi, Bratislava í Slóvakíu, Celje í Slóveníu, Genf í Sviss, Canazei á Ítalíu, Innsbruck í Austurríki, Sofíu í Búlgaríu og Belgrad í Serbíu. Það hefur bara gengið fínt að keppa, hef oftast verið að lenda í topp 4 sætunum.





Svífandi um svellið!
Ætlar þú að halda áfram að vera úti í löndum á veturna? Ég ætla mér að halda áfram að keppa í útlöndum en ég er að æfa með Skautafélagi Akureyrar.

Lærir þú eitthvað af grunnskólafögum úti? Ég tek alltaf skólabækur með mér og læri bara það sem krakkarnir í bekknum mínum eru að læra.

Hvar sérðu þig eftir fimm ár? Á stórmótum að keppa á skautum og ferðast um heiminn.

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í sumar? Fara á Þjóðhátíð og ferðast hringinn í kringum landið og njóta lífsins í sveitinni okkar. En þess á milli verð ég í skemmtilegum æfingabúðum á skautum með fullt af öðrum krökkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×