Lífið

Leggja Skálholtskirkju lið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Karlakór Grafarvogs hefur orð fyrir frjálslega framkomu.
Karlakór Grafarvogs hefur orð fyrir frjálslega framkomu.
Það er gaman að geta hnýtt saman söng og góðar hugmyndir. Gestir á tónleikunum okkar geta síðar horft á gluggana í Skálholtskirkju í fullvissu um að þeir hafi lagt sitt af mörkum til viðgerða á þeim.“

Þetta segir Hans Unnþór Ólason, formaður Karlakórs Grafarvogs sem syngur í Skálholtskirkju í dag, 13. maí, klukkan 15 til ágóða fyrir Verndarsjóð kirkjunnar.

„Við höfum verið í kórbúðum í Skálholti undanfarin ár í góðu yfirlæti, skemmt okkur vel og tekið miklum framförum þannig að Skálholt á sérstakan sess í okkar hjörtum. Nú fáum við tækifæri til að sýna þakklæti okkar.“

Hans segir lagavalið létt og fjölbreytt. „Við höfum gert dálítið að því að láta útsetja fyrir kórinn, Íris Erlingsdóttir, stjórnandinn okkar, gerir það meðal annarra.



Erum að syngja eftir Leonard Cohen, lag sem Johnny Cash gerði ódauðlegt, Hryssuna bláu og fleira skemmtilegt. Einnig eru lög tileinkuð íslensku sveitinni, perlur eins og Þú komst í hlaðið og Undir dalanna sól, svo nokkuð sé nefnt. Svo erum við með hörku hljóðfæraleikara með okkur.“

Karlakór Grafarvogs hefur sungið í Skálholtskirkju áður, að sögn Hans. „Einu sinni var kirkjan full af ferðamönnum, leiðsögumaðurinn bað okkur að syngja og við gerðum það að sjálfsögðu þó það væri óundirbúið. Ein konan fór að gráta þegar við sungum Kvöldið er fagurt, hún var þá nýbúin að missa pabba sinn og fannst lagið svo angurvært.“

Aðgangseyrir að tónleikunum í dag er 2.500 krónur. Hans kveðst vona að sem flestir njóti þeirra og leggi brýnu málefni lið í leiðinni.



 

Einn af gluggum Skálholtskirkju.
Um glugga Gerðar Helgadóttur

Þó smíði Skálholtskirkju lyki árið 1963 voru gluggarnir komnir í hana 1959. Gefendur þeirra voru Ludwig Storr, stórkaupmaður í Reykjavík, bróðir hans Edward Storr, Svend Lois Foght í Kaupmannahöfn og fjölskyldur þeirra.

Eftir stóru jarðskjálftana 2000 og 2008 komu í ljós skemmdir í gluggunum. Nú hefur verið ákveðið að þeir verði allir teknir niður og sendir til Þýskalands.  Heildarkostnaður vegna viðgerðanna verður á bilinu 50 til 70 miljónir.

Skálholtsfélag hið nýja beitti sér fyrir stofnun Verndarsjóðs Skálholtsdómkirkju, sem safnar frjálsum framlögum til viðgerðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×