Formúla 1

Lewis Hamilton vann á Spáni

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton var fyrstur í mark í spænska kappakstrinum.
Lewis Hamilton var fyrstur í mark í spænska kappakstrinum. Vísir/Getty

Lewis Hamilton á Mercedes kom fyrstur í mark í spænska kappakstrinum. Sebastian Vettel á Ferrari varð annar og Daniel Ricciardo á Red Bull varð þriðji.

Vettel stal forystunni strax í ræsingunni. Hamilton var örlítið hægari af stað. Kimi Raikkonen og Max Verstappen lentu í samstuði í fyrstu beygju. Verstappen komst inn á þjónustusvæðið til að hætta keppni en Raikkonen stöðvaði bílinn utan brautar með fjöðrunina hægra megin að framan mölbrotna.

Heimsmeistarakeppni ökumanna er orðinn afar spennandi. Munurinn á Hamilton og Vettel er sex stig. Liðsfélagar beggja duttu út.

Vettel setti í botn strax í byrjun og myndaði sér gott forskot. Eftir þrjá hringi var hann kominn með rúmlega tveggja sekúndna forskot.

Alonso sem átti eina bestu tímatöku ferilsins í gær ræsti sjöundi. Hann lenti í samstuði við Felipe Massa á Williams í fyrstu beygju og tapaði fjórum sætum við það að fara yfir mölina.

Vettel kom inn á þjónustusvæðið á 14. hring og tók aftur mjúk dekk undir. Hamilton var á meðan að setja hraðasta hring keppninnar. Vettel svaraði svo á sínum fyrsta hring á nýjum dekkjum.

Hamilton kom inn á þjónustusvæðið á 21. hring og fékk hörðu dekkin undir. Hamilton kom út á brautina aftur um átta sekúndum á eftir Vettel sem hafði ekið afar vel á nýju dekkjunum þá 7 hringi sem hann hafði á meðan Hamilton var á slitnum dekkjum.

Fernando Alonso átti ekki góðan dag í dag eftir magnaða tímatöku í gær. Vísir/Getty

Valtteri Bottas átt eftir að taka þjónustuhlé og Vettel var búinn að ná honum. Hamilton nálgaðist óðfluga á meðan Vettel tapaði tíma fyrir aftan Bottas. Vettel komst svo fram úr Bottas á dramatískan hátt á 25. hring og gat þá reynt að aka aðeins hraðar til að mynda bil á milli sín og Hamilton. Vettel átti eftir að taka undir meðal-hörðu dekkin.

Stafræni öryggisbíllinn var virkjaður á 35. hring þegar Stoffel Vandoorne á McLaren keyrði á Massa í fyrstu beygju. Vandoorne virtist hreinlega ekki sjá Massa.

Hamilton kom inn á þjónustusvæðið á 37. hring og fékk mjúku dekkin undir, hann ætlaði að nýta sér stafræða öryggisbílinn en hann var óvirkjaður meðan Hamilton var að aka inn á svæðið. Vettel svaraði á næsta hring og fékk meðal-hörðu dekkin undir.

Þegar Vettel kom út á brautina aftur voru þeir jafnir í gegnum fyrstu beygju og skullu saman. Baráttan um forystuna var rosaleg.

Eldur fór að loga í Mercedes bíl Bottas á 40. hring og Bottas var þar með úr leik. Við það færðist Daniel Ricciardo á Red Bull upp í þriðja sætið.

Hamilton tók fram úr Vettel á ráskaflanum á 43. hring. Hamilton var hins vegar á mjúkum dekkjum og þau endast ekki eins lengi og meðal-hörðu dekkin sem voru undir hjá Vettel.

Vettel hóf að sækja á Hamilton undir lok 59. hrings. Bilið var þá 3,5 sekúndur og Vettel var fljótur að saxa á forskot Hamilton. Vettel reyndi hvað hann gat en allt kom fyrir ekki. Hamilton kom fyrstur í mark.


Tengdar fréttir

Lewis Hamilton ræsir fremstur á Spáni

Lewis Hamilton náði í ráspól í tímatökunni fyrir spænska kappaksturinn. Sebastian Vettel á Ferrari varð annar og Valtteri Bottas varð þriðji.

Alonso: Sjöunda sæti er eins og gjöf í dag

Lewis Hamilton náði ráspól fyrir spænska kappaksturinn sem fram fer á morgun eftir afar spennandi tímatöku. Fernando Alonso kom einna helst á óvart með sjöunda sætinu. Hver sagði hvað eftir tímatökuna?

Lewis Hamilton fljótastur á föstudagsæfingum

Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur á báðum æfngum dagsins sem fram fóru á Katalóníubrautinni á Spáni. Valtteri Bottas á Mercedes varð annar á báðum æfingum.
Fleiri fréttir

Sjá meira