Handbolti

Sólveig Lára: Hafði ekki áhuga á að geta ekki neitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sólveig Lára skoraði átta mörk.
Sólveig Lára skoraði átta mörk. vísir/ernir
Sólveig Lára Kjærnested átti sinn besta leik í úrslitakeppninni þegar Stjarnan bar sigurorð af Fram, 23-19, í fjórða leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld.

Sólveig Lára spilaði undir pari í fyrstu tveimur leikjunum en var öflug í dag og skoraði átta mörk.

„Við spiluðum frábæran varnarleik í byrjun leiks og markvarslan fylgdi með. Það hjálpaði okkur inn í leikinn,“ sagði Sólveig Lára sem var staðráðin í að láta til sín taka í dag.

„Ég hafði engan áhuga á að koma inn í úrslitakeppnina og geta ekki neitt. Við þurfum að nýta það pláss sem skapast þegar Helena [Rut Örvarsdóttir] er tekin út. Mér fannst við gera það ágætlega í dag.“

Stjarnan var sjö mörkum yfir í hálfleik, 13-6, og náði mest níu marka forskoti, 17-9. Eftir það byrjaði Fram að saxa á forskotið en Sólveig Lára segist ekki hafa verið farin að hafa áhyggjur af mögulegri endurkomu gestanna.

„Auðvitað hugsar maður alltaf til baka, til leikja sem við höfum misst niður forskot. Mér fannst við ekki á þeim buxunum í dag og það var kraftur í okkur allan tímann,“ sagði Sólveig Lára sem segir að Stjarnan geti bætt margt í leik sínum þrátt fyrir sigurinn.

„Klárlega, það eru fullt af atriðum. Núna förum við að skoða það og myndbandsvinnan fer í gang.“

Sólveig Lára segir að Stjarnan ætli sér að knýja fram oddaleik með sigri í fjórða leiknum á miðvikudaginn.

„Markmiðið var bara að vinna þennan leik og koma okkur í leikinn á miðvikudaginn. Núna er bara nýtt markmið, að vinna þann leik og búa til alvöru keppni úr þessu,“ sagði Sólveig Lára að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×