Innlent

Vilja afsökunarbeiðni frá Benedikt vegna ummæla hans um lundafléttuna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. Vísir/Ernir
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á Alþingi í dag vegna ummæla sem hann lét falla í sérstökum umræðum um sölu ríkisins á landi Vífilsstaða til Garðabæjar. Benedikt beindi orðum sínum til málshefjanda; Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokks.

„Það vantar lundann í þennan samning. Það eru þau vinnubrögð sem háttvirtur þingmaður vill viðhafa,“ sagði Benedikt og átti þar tíðrædda „lundafléttu“ úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna einkavæðingar Búnaðarbankans og aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser. Ólafur Ólafsson, sem er í aðalhlutverki í skýrslu nefndarinnar hefur jafnan verið tengdur við Framsóknarflokkinn.

Þá sagði Benedikt að ljóst sé að Sigurður Ingi beri sérstakan kala til Garðabæjar, enda séu þar engir fulltrúar á hans vegum – Framsóknarflokknum. Með þeim orðum Benedikts lauk sérstakri umræðu um Vífilsstaði og segja má að soðið hafi upp úr á þingi í kjölfarið, þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum steig í pontu og fór fram á afsökunarbeiðni. Sigurður Ingi var þeirra á meðal en hann gagnrýndi ráðherrann fyrir ómálefnaleg svör.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist vart hafa trúað eigin eyrum. „...Að verið væri að líkja málflutningi Sigurðar Inga Jóhannssonar við lundafléttuna úr Hauck & Aufhäuser skýrslunni. Ég spyr mig nú bara: Hvurs lags er þetta? [...]  Ég held að hæstvirtur ráðherra væri maður að meiri ef hann kæmi hingað upp og bæðist afsökunar á þessum orðum sínum,“ sagði hún.

Aðrir þingmenn tóku undir og gagnrýndu Sigurð fyrir að fara frekar í manninn en boltann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×