Viðskipti innlent

Hagnaður Haga rúmir fjórir milljarðar króna

Anton Egilsson skrifar
Hagar hf. högnuðust um 4.036 milljónir króna á tímabilinu 1. mars í fyrra til 28. febrúar í ár. Það samsvarar fimm prósentum af veltu félagsins. Handbært fé félagsins var 2.474 milljónir, eigið fé 17.412 milljónir og eiginfjárhlutfall var 57,8 prósent í lok rekstrarársins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum en ársreikningur félagsins var samþykktur af stjórn félagsins og forstjóra þess, Finni Árnasyni, í dag. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess.

Um er að ræða töluverða hagnaðaraukningu á milli ára en á síðasta rekstrarári á undan nam hagnaður Haga rétt tæpum 3,6 milljörðum króna. Söluaukning félagsins var 2,7 prósent og var vörusalan 80.521 milljónir króna á tímabilinu.

Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 685 milljónir króna milli ára en segir í tilkynningunni að hækkunin, sem var 9,6 prósent, sé í takt við kjarasamningshækkanir og almenna launaþróun á rekstrarárinu. Launahlutfallið er nú 9,7 prósent en var 9,1 prósent á fyrra ári

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta nam 6.024 milljónum króna, samanborið við 5.659 milljónir króna árið áður. EBITDA hækkar um 0,3 prósent milli ára og var EBITDA framlegð 7,5 prósent en 7,2 prósent árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×