Enski boltinn

Mourinho: Michael Oliver bjargaði tímabilinu fyrir okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Oliver sýnir Ander Herrera rauða spjaldið í leik Manchester United og Chelsea í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Michael Oliver sýnir Ander Herrera rauða spjaldið í leik Manchester United og Chelsea í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Mike Oliver hafi bjargað tímabilinu hjá United með því að reka Ander Herrera út af í tapinu fyrir Chelsea í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í mars.

Mourinho hefur verið afar tíðrætt um það mikla leikjaálag sem er á United þessar vikurnar og kvartað sáran.

„Þetta er brjálæði. Ég vil bara þakka Michael Oliver fyrir að við erum úr leik í bikarkeppninni,“ sagði Mourinho.

„Ef við hefðum komist í undanúrslitin veit ég ekki hvenær við hefðum spilað þann leik. Ég hef aldrei lent í öðru eins og til að bæta gráu ofan á svart höfum við glímt við mikil meiðsli, mörg hver alvarleg. Ég hef alltaf færri og færri leikmenn. Þetta er mjög erfitt, virkilega erfitt.“

United á þrjá leiki eftir á tímabilinu. Liðið sækir Southampton heim í ensku úrvalsdeildinni á morgun og fær svo Crystal Palace í heimsókn í lokaumferðinni á sunnudaginn.

Á miðvikudaginn í næstu viku mætir United svo Ajax í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Sigur í honum gefur United sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×