Innlent

Sprenging í fjölgun umferðarslysa erlendra ferðamanna

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Umferðarslys varð í Austur-Húnavatnssýslu í gær.
Umferðarslys varð í Austur-Húnavatnssýslu í gær. mynd/höskuldur birkir
Tíu ferðamenn slösuðust í tveimur umferðarslysum um kvöldmatarleytið í gær. Sprenging varð í fjölgun umferðarslysa erlendra ferðamanna á síðasta ári og viðbúið er að fleiri muni slasast í ár.

Á aðeins tveggja klukkustunda tímabili síðdegis í gær voru báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar sendar í fjögur misalvarleg útköll þar af tvö umferðarslys. Annað þeirra var þegar húsbíll með sex ferðamönnum fauk út af Suðurlandsvegi undir Reynisfjalli.

Allir voru fluttir með með þyrlu á Landsspítalann í Fossvogi en samkvæmt heimildum fréttastofu er einn úr því slysi alvarlega slasaður.

Í Austur Húnavatnssýslu fór bílaleigubíll út af og valt með fjórum ferðamönnum innanborðs. Voru þeir allir fluttir með þyrlu á Sjúkrahúsið á Akureyri. Meiðsli þeirra reyndust ekki alvarleg.

Árið 2014 slösuðust 123 erlendir ferðamenn í umferðinni hér á landi. 21 alvarlega. Árið 2015 tæplega tvöfaldaðist heildarfjöldi slasaðra í þessum hópi. 213 slösuðust. 26 alvarlega og fimm létust. Á síðasta ári var heildarfjöldi slasaðra 223. 47 alvarlega og tveir létust.

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa 50 erlendir ferðamenn slasast í umferðinni. 43 þeirra lítið en 7 alvarlega. Þróunin er því ansi slæm það sem af er ári hvað slasaða ferðamenn varðar og ef fram fer sem horfir er áætlað að 370 erlendir ferðamenn slasist í umferðinni á þessu ári.

 

Eins og greint var frá í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær stefnir í að allir sjúkraflutningamenn á Blönduósi láti af störfum á morgun og fimmtudag vegna vanefnda ríkisins í endurskoðun kjarasamninga. Á þeirra starfssvæði hafa mörg af alvarlegustu umferðarslysum hvers árs orðið. Fjármálaráðherra var ekki tilbúinn í viðtal vegna þess máls en samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaráðuneytinu er unnið að lausn málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×