Innlent

Vilja upplýsa fjárfestingu í hverfum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillöguna.
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillöguna. vísir/stefán
Borgarstjórn samþykkti í gær að vísa tillögu um að upplýsingar um fjármál einstakra hverfa verði gerðar aðgengilegar á vef borgarinnar inn í fjárhagsáætlunargerð stjórnkerfis- og lýðræðisráðs fyrir árið 2018.

„Við getum því vonandi átt von á því að geta farið að sjá fjármál hverfanna með aðgengilegri hætti á næsta ári,“ segir Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem lagði fram tillöguna.

„Ég legg þetta til vegna þess að borið hefur á því að borgarbúum finnist að ójafnt sé skipt hvað varðar fjárfestingar í ólíkum hverfum borgarinnar. Nú þegar við höfum tækin og tólin til að draga slíkar upplýsingar fram þá væri upplýsandi að gera það,“ segir hún. Þannig verði skilgreint hvaða kostnaður verði til vegna þjónustu og framkvæmda í þágu íbúa ólíkra hverfa.

„Það er einnig liður í því að almenningur geti séð í hvað útgjöldin fara og hvernig þau dreifast. Í leiðinni má skilgreina hvaða þjónusta flokkast sem nærþjónusta við íbúa hverfisins. Það er áhugavert því að oft hefur maður heyrt að of mikið sé gert í miðborginni á kostnað hinna hverfanna en íbúum í miðborginni finnst lítið gert hvað varðar þjónustu við þá. Því ekki að nota tæknina til að gera sýn okkar á fjármálin einfaldari?“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×