Innlent

Dæmdur fyrir að berja mann og draga hann eftir Austurstræti

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Austurstræti.
Frá Austurstræti. Vísir/Pjetur.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til fjögurra mánaða fangelsisvistar fyrir líkamsárás við verslun 10-11 í Austurstræti og fyrir brot gegn valdstjórninni.

Var maðurinn ákærður fyrir að hafa ráðist á annan mann við 10-11, slegið hann í andlit svo hann féll í götuna, sest síðan ofan á manninn og slegið hann í andlit, tekið í fætur mannsins og dregið hann eftir götunni, allt með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut yfirborðskennt mar yfir bringubeini, bólgur í kringum hægra auga og brot í augnbotni hægra megin. Átti þessi árás sér stað í október árið 2015.

Maðurinn var sömuleiðis ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa að kvöldi mánudagsins 22. febrúar árið 2016 hrækt og frussað á lögregluvarðstjóra á lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi. Lögregluvarðstjórinn var þar við skyldustörf og fékk yfir sig munnvatn og hor frá manninum.

Maðurinn neitaði sök í fyrri ákærunni en játaði að hafa framið það brot sem honum var gefið sök í síðari ákærunni.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi sannað með framburði vitna að maðurinn hefði gerst sekur um líkamsárásina við 10-11.

Dóminn má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×