Innlent

Ekkert um safnið í áætlunum

Svavar Hávarðsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson, menntamála- og menningarráðherra, tók við áskorun 16 félagasamtaka í gær.
Kristján Þór Júlíusson, menntamála- og menningarráðherra, tók við áskorun 16 félagasamtaka í gær. vísir/gva
„Það eru vonbrigði að Náttúruminjasafnsins skuli ekki vera getið í ríkisfjármálaáætluninni. Sérstaklega vegna þess að fyrir liggur samþykkt Alþingis frá síðasta þingi um að tryggja skuli uppbyggingu safnsins í áætluninni,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Hópur félagasamtaka á sviði náttúrufræða, útivistar og umhverfismála afhenti í gær Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra, sameiginlega ályktun og áskorun um að stjórnvöld standi við fyrirheit, sem gefin voru í ályktun Alþingis vegna 100 ára fullveldisafmælis landsins árið 2018, um uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Hilmar segir þó ekki alla von úti. „Enn er tími til stefnu og ég trúi ekki öðru en að þingmenn standi við loforð sín og sjái sóma sinn í því að leiðrétta stöðu Náttúruminjasafnsins. Samstarf við háskólasamfélagið og hugsanleg bygging safnahúss í Vatnsmýri, eins og nefnt er í ályktun samtakanna, kann að vera mikilvæg lausn til frambúðar fyrir Náttúruminjasafnið,“ segir Hilmar og bætir við að um langtímaverkefni sé að ræða og fleira þurfi að koma til og fyrr. Þar á meðal er möguleg þátttaka safnsins í sýningahaldi í Perlunni með Perlu norðursins ehf., sem mennta- og menningamálaráðherra hefur nýlega ákveðið að láta kanna nánar og er sú vinna hafin.

Hilmar segir að hvatning sextán samtaka um uppbyggingu Náttúruminjasafnsins sé bæði ánægjuleg og dýrmæt í baráttunni fyrir bættum hag safnsins – og þakkar hann framtakið.

„Þarna taka saman höndum samtök á ýmsum sviðum sem snerta náttúrufræði, jafnt samtök um náttúrufræðikennslu, náttúruvernd, umhverfismál og útivist. Þetta lýsir vel málefninu sem ályktunin snýst um – starfsemi Náttúruminjasafnsins snertir alla þjóðina og aðra gesti landsins – sem er fræðsla og kynning á undrum náttúrunnar, landsins gögnum og nauðsynjum og upplýsing um hvernig sjálfbær umgengni við auðlindirnar skilar okkur áfram veginn á vistvænan hátt,“ segir Hilmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×