Innlent

Skólameistari kom fram við staðgengil sem aðstoðarmann

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
FVA kom verst allra framhaldsskóla út úr könnun SFR á stofnun ársins.
FVA kom verst allra framhaldsskóla út úr könnun SFR á stofnun ársins. vísir/pjetur
Fyrrverandi aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) hefur stefnt ríkinu til greiðslu launa og bóta vegna ólögmætrar uppsagnar á haustmánuðum 2015.

Maðurinn hafði starfað við FVA í tæpa tvo áratugi við góðan orðstír þegar staða aðstoðarskólameistara, staðgengils skólameistara, var auglýst laus til umsóknar. Afréð hann að sækja um starfið meðal annars eftir hvatningu frá skólameistara.

Í stefnu segir að samstarf aðstoðarskólameistara og skólameistara hafi gengið vel framan af. Hins vegar kom smám saman í ljós að skólameistari ætlaðist til annarra hluta af staðgengli sínum en féllu undir eðlilega túlkun á starfslýsingu hans. Í stefnu mannsins segir að skólameistari hafi litið svo á að hlutverk hans væri fyrst og fremst að vera aðstoðarmaður skólameistara í hverju því sem honum kæmi til hugar.

Af þessum sökum kvartaði maðurinn til skólameistara og í kjölfarið fóru fram tveir fundir vegna málsins. Þar var aðstoðarskólameistaranum tilkynnt að hann stæði sig illa í starfi þó eigi væri tilgreint frekar hvar þá vankanta væri að finna.

Þriðji fundur var áætlaður í lok september en ekki kom til hans þar sem aðstoðarskólameistaranum var án skýringa kynnt riftun á ráðningarsamningi hans. Við skoðun á aðdraganda riftunar og efni uppsagnarbréfsins taldi hann að brotið hefði verið á sér. Freistaði hann þess að afhenda skólameistaranum greinargerð um stöðu málsins en skólameistarinn neitaði að veita henni viðtöku. Degi síðar var maðurinn beðinn um að taka saman föggur sínar og mæta ekki frekar í skólann.

Aðstoðarskólameistarinn fyrrverandi telur að riftunin hafi verið ólögmæt. Eigi hann því rétt á efnda­bótum, bótum fyrir ólögmæta uppsögn og miskabótum, alls rúmlega 63 milljónum króna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×