Innlent

Aldrei fleiri grunaðir um akstur undir áhrifum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í apríl voru 144  ölvunarakstursbrot.
Í apríl voru 144 ölvunarakstursbrot. vísir/eyþór
Í apríl voru skráð 144 brot þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og 105 brot þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur samkvæmt afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki hafa verið skráð jafn mörg brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna eftir að ný lög tóku gildi árið 2006 sem höfðu í för með sér að verklag lögreglu breyttist í þessum málum. Að sama skapi þarf að leita aftur til nóvember 2008 til að finna fleiri ölvunarakstursbrot en skráð voru í apríl síðastliðnum. Þessi mikla fjölgun brota er afrakstur sérstaks átaks sem farið var í á varðsvæði lögreglustöðvar 1, sem nær frá Seltjarnarnesi að Laugardalnum segir í tilkynningu.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 655 tilkynningar um hegningarlagabrot í apríl. Af hegningarlagabrotum fækkaði þjófnuðum, ofbeldisbrotum gagnvart lögreglumönnum og kynferðisbrotum miðað við meðalfjölda síðustu sex mánuði á undan. Fíkniefnabrotum og umferðarlagabrotum fjölgaði hins vegar nokkuð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×