Körfubolti

Aðeins Páfuglinn fékk fleiri atkvæði en Martin þegar Frakkarnir völdu þann besta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. vísir/stefán

Martin Hermannsson varð annar í kjörinu á besta leikmanni frönsku b-deildarinnar í körfubolta en uppskeruhátíðin var í gær.

Martin var sýndur mikill heiður með því að vera tilnefndur og á endanum var bara einn leikmaður sem fékk fleiri atkvæði.

Bandaríkjamaðurinn Zachery Peacock, þrítugur framherji Bourg-en-Bresse, var kjörinn besti leikmaður deildarinnar í vetur.

Peacock er stighæsti leikmaður deildarinnar með 17,9 stig í leik og hann er auk þess í 12. sæti í fráköstum (6,8). Lið hans er með besta árangurinn í deildinni.

Páfuglinn fékk 94 stig í kjörinu eða 35 stigum meira en Martin. 11 settu  Peacock í fyrsta sætið en Martin fékk tvö atkvæði í fyrsta sætið.

Martin Hermannsson hefur staðið sig frábærlega á fyrsta tímabili með Charleville-Mézières en hann er með 17,2 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Martin er í 2. sæti í stigum og í 6. sæti í stoðsendingum.

Ein umferð er eftir af deildarkeppninni en svo tekur úrslitakeppnin við.  Charleville-Mézières er í 5. sætinu fyrir lokaumferðina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira