Innlent

Lausnin á húsnæðisvanda ungs fólks ekki að neita sér um avókadó og latté

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ungt fólk á háskólatorgi Háskóla Íslands. Finnist þeim avókadó og kaffi gott þurfa þau ekki að fylgja ráðum ástralska milljónamæringsins til að geta keypt sér íbúð.
Ungt fólk á háskólatorgi Háskóla Íslands. Finnist þeim avókadó og kaffi gott þurfa þau ekki að fylgja ráðum ástralska milljónamæringsins til að geta keypt sér íbúð. vísir/getty
Ástralski milljónamæringurinn Tim Gurner lenti heldur betur í samfélagsmiðlastormi í vikunni eftir að brot úr viðtali við hann í 60 mínútum fór eins og eldur í sinu um netheima. Í viðtalinu kom Gurner með ráð til ungs fólks sem hefur ekki efni á að kaupa sér íbúð: hættið að kaupa ykkur ristað brauð með avókadó.

„Þegar ég var að reyna að kaupa mér fyrstu íbúðina mína þá var ég að kaupa avókadó-brauð á 19 dollara og fjóra kaffibolla sem kostaði 4 dollara hver. Í dag erum við einfaldlega á þeim stað að væntingar ungs fólks eru mjög miklar.“

Þegar hann var svo spurður að því hvort hann teldi að ungt fólk myndi aldrei eignast húsnæði svaraði hann um hæl:

„Algjörlega. Sérstaklega þegar þú eyðir 40 dollurum á dag í avókadó og kaffi og ert ekki að vinna.“

New York Times kannaði hvort að þetta ráð milljónamæringsins gæti í raun nýst ungu fólki en því má halda til haga að þegar Gurner sjálfur var að koma undir sig fótunum fékk hann 34 þúsund dollara í hjálp frá afa sínum.

Ekki er allt ungt fólk svo heppið að hafa möguleika á slíkri hjálp, hvorki í Bandaríkjunum, Bretlandi né á Íslandi til að kaupa sína fyrstu íbúð en í umfjöllun New York Times kemur fram að þó að ungt fólk myndi hætta að fara út að borða þá myndi það samt taka 113 ár að safna fyrir útborgun í íbúð.

Mikið hefur verið rætt um húsnæðisvanda ungs fólks á Íslandi undanfarin misseri en margir samverkandi þættir hafa þar áhrif; hátt húsnæðisverð, lítið framboð á litlum íbúðum, erfiður leigumarkaður og svo sú staðreynd að Íslendingum er ekki mjög tamt að leggja fyrir og safna peningunum.

Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segir að það hafi lengi loðað við Íslendinga að vera ekki duglegir að spara. Það eigi ekkert bara við ungt fólk.

„Við erum hins vegar dugleg að taka lán fyrir ýmsum hlutum og það má eiginlega segja að þetta sé að miklu leyti kerfislægt. Okkur er hrundið út í að taka lán raun og veru löngu áður en við gerum okkur grein fyrir því hvað það þýðir og við sem þjóð höfum kannski ekki staðið okkur nóg vel í því að kenna krökkunum okkar á fjármál,“ segir Breki í samtali við Vísi.

Breki Karlsson
Engin þjóð eins dugleg að taka yfirdráttarlán og Íslendingar

Hann tekur sem dæmi námslán sem margt ungt fólk tekur á meðan það er í háskóla.

„Þau eru greidd eftir á og fæstir gera sér ekki grein fyrir því þegar þeir taka þau að flestir þurfa að taka yfirdráttarlán til að brúa bilið áður en þeir taka annað lán. Yfirdrátturinn er svona dæmi um fyrirfram neyslu og ég veit ekki um neina aðra þjóð sem er jafn dugleg að taka yfirdráttarlán eins og við. Þetta spilar auðvitað inn í,“ segir Breki.

Hann segir lykilatriði að kenna börnum og unglingum fjármálalæsi og mikilvægi þess að spara. Breki bendir til dæmis á hollenska rannsókn sem var gerð eftir seinna stríð þar sem helmingur hollenskra skólakrakka var látinn spara reglulega en hinn helmingurinn gerði það ekki. Tuttugu árum seinna voru hóparnir svo skoðaðir á ný og kom í ljós að þeir sem höfðu sparað reglulega sem börn vegnaði betur fjárhagslega á allan hátt.

Breki segir að fjármálalæsi sé að einhverju leyti komið inn í námskrá í grunn-og framhaldsskólum hérlendis en það vanti eftirfylgni og einhvers konar stefnumótun varðandi þessi mál. Aðspurður hvort að það sé þörf á vitundarvakningu um sparnað hér á landi segir hann svo vera.

Íslendingar þurfa að læra að leggja fyrir og taka minna af lánum. Vísir/Valli
Betra að hafa plan en að hugsa „þetta reddast“

„Algjörlega. Rannsóknir sem við höfum gert sýna að þekking okkar Íslendinga á fjármálalæsi er á pari við þær þjóðir sem við berum okkur saman við í Norður-Evrópu en viðhorf okkar og hegðun þegar kemur að fjármálalæsi. Ef við værum með einhvers konar þjóðarmottó Íslendingar þá væri það „Þetta reddast“ sem er í raun sama mottó og ég kynntist hjá Mexíkóum þegar ég bjó þar. Þeir segja „Mañana, mañana,“ sem þýðir „Á morgun, á morgun.““

Það má segja að undirtónninn í umdeildri auglýsingaherferð Íslandsbanka á dögunum um að ungt fólk ætti ekki að gefast upp á því að reyna að kaupa íbúð, það væri hægt ef maður hefði plan, hafi einmitt verið sá að það þarf að spara og safna sér fyrir íbúð. Það er vissulega erfitt en Breki bendir á að það hafi alltaf verið erfitt að kaupa sér íbúð á Íslandi.

„Vextir hafa alltaf verið háir hér á landi í öllum samanburði við önnur lönd. Meðalfjölskyldan hér skuldar 12 milljónir króna í húsnæðislán, sumir skulda auðvitað meira og aðrir minna eða ekkert, en þetta þýðir að við erum að borga 600 þúsund krónum meira á ári bara í hærra vexti en til dæmis Færeyingar,“ segir Breki.

Án þess að hann vilji svo taka einhverja afstöðu gagnvart auglýsingaherferð Íslandsbanka segir hann að það sé auðvitað betra að hafa plan heldur en að hafa „þetta reddast“- mottóið endilega í hávegum.

„En svo er það auðvitað aldrei þannig að það sé eitthvað eitt sem virkar fyrir alla. Fjármálalæsi snýst um að velja og hafna og taka meðvitaðar ákvarðanir um það en út af því að við hugsum svo mikið um að þetta reddist þá erum við ekkert voðalega mikið að spá í framtíðinn og við þyrftum náttúrulega að vera að pæla meira í henni en við gerum. Aftur á móti höfum við kannski ekkert góða reynslu af því að skipuleggja of mikið fram í tímann út af því að sveiflurnar hér hafa verið svo miklar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×