Erlent

Undirbúningur á lokametrunum vegna brúðkaups Pippu Middleton

Atli Ísleifsson skrifar
Pippa Middleton og James Matthews í desember síðastliðinn.
Pippa Middleton og James Matthews í desember síðastliðinn. Vísir/AFP
Lokaundirbúningur vegna brúðkaups Pippu Middleton, systur Katrínar Middleson, hertogaynju af Cambridge, stendur nú yfir. Pippa mun ganga að eiga unnusta sinn, fjármálamanninn James Matthews, á laugardag.

Vígslan mun eiga sér stað í kirkju heilags Markúsar í þorpinu Englefield í Berkshire, nálægt þeim stað sem Pippa ólst upp. Veislan verður haldin í garði foreldra hennar.

Vilhjálmur Bretaprins og Katrín verða í hópi gesta þar sem Georg litli prins mun aðstoða Pippu frænku og halda á slöri hennar (e. page boy) þegar hún gengur inn kirkjugólfið. Þá verður Karlotta litla ein brúðarmeyja.

Sky News greinir frá því að Katrín hafi viðurkennt í garðveislu fyrr í vikunni að hún hefði áhyggjur af því hvernig börnin myndu haga sér á stóra degi Pippu.

Harry prins er einnig boðið ásamt kærustu sinni, bandarísku leikkonunni Meghan Markle. Verði Markle viðstödd verður það í fyrsta sinn sem hún kemur opinberlega fram með öðrum meðlimum bresku konungsfjölskyldunnar.

Ekki er vitað hver hannar brúðarkjól hinnar 33 ára Pippu en í frétt Sky News er haft eftir tískusérfræðingum að hönnuðirnir Amanda Wakeley, Jenny Packham, Oscar De La Renta, Giles Deacon og Alexander McQueen komi öll til greina.

Yngri bróðir hins 41 árs James Matthews, Spencer, er talinn líklegur til að gegna hlutverki svaramanns. Þau Pippa og James trúlofuðust síðasta sumar.

Pippa vakti gríðarlega athygli fjölmiðla í brúðkaupi Katrínar, systur sinnar, og Vilhjálms prins árið 2011.


Tengdar fréttir

Pippa labbar í vinnuna

Systir hertogaynjunnar af Cambridge, Pippa Middleton, lætur ljósmyndara sem elta hana á röndum hvert sem hún fer ekki slá sig út af laginu þegar kemur að því að ganga í vinnuna...

Pippa byrjuð með bankamanni

Pippa Middleton, systir hertogynjunnar af Cambridge, er byrjuð að deita bankamanninn James Matthews. Þau hafa sést oft saman í London og hamingjan skín úr augum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×