Innlent

Hækkuðu eigin laun um 66 prósent

Sveinn Arnarsson skrifar
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri
Laun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar hækkuðu um 66 prósent á síðasta ári. Lífeyrissjóðurinn er alfarið rekinn af lífeyrissjóðnum Stapa og því er stjórnin ekki með neinn starfsmann á sínum snærum.

Þetta kom fram á síðasta aðalfundi lífeyrissjóðsins sem haldinn var á dögunum. Árslaun formanns stjórnar lífeyrissjóðsins, bæjarstjórans Eiríks Björns Björgvinssonar, hækkuðu á milli ára um 66 prósent, fóru úr 180 þúsund krónum í 300 þúsund. Á sama ári lækkaði raunávöxtun sjóðsins úr níu prósentum í rétt rúmlega tvö prósent. Aðrir aðalmenn í sjóðnum hækka úr 90 þúsund krónum í 150 þúsund.

Auk Eiríks í stjórn sjóðsins eru oddvitar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir hönd Akureyrar auk tveggja stjórnarmanna frá Kili stéttarfélagi.

Einnig var samþykkt að hækka árslaun stjórnarmanna lítillega fyrir árið 2017 á stjórnarfundinum.

Stapi lífeyrissjóður sér um rekstur Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar í samræmi við samning sjóðanna þar um.

Markmiðið með samningnum er að tryggja góðan rekstur LSA sem og góða þjónustu við sjóðfélaga. Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs er jafnframt framkvæmdastjóri LSA.

Ekki náðist í Eirík Björn Björgvinsson, bæjarstjóra á Akureyri, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanns.

Leiðrétting: Í upphaflegu fréttinni var talað um laun stjórnarmanna. Rétt væri að tala um árslaun stjórnarmanna til að koma í veg fyrir misskilning. Hér er um árslaun að ræða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×