Innlent

Vegleg kveðjuhóf starfsmanna haldin á kostnað borgarbúa

Snærós Sindradóttir skrifar
Í Höfða eru  helstu veislur borgarinnar haldnar.
Í Höfða eru helstu veislur borgarinnar haldnar. vísir/heiða
Kveðjuhóf sem haldið var á föstudag í Höfða í tilefni þess að Svanhildur Konráðsdóttir, fráfarandi sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, hættir störfum og tekur við starfi forstjóra Hörpu kostaði borgina tæpar 400 þúsund krónur. Slíkt kveðjuhóf er haldið í hvert sinn sem sviðsstjóri hjá borginni lætur af störfum og var einnig haldið þegar fyrrverandi forseti borgarstjórnar, Sóley Tómasdóttir, hætti í borgarstjórn.

Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um boðið og fékk þau svör að löng hefð væri fyrir því að kveðja sviðsstjóra Reykjavíkurborgar með þessum hætti. Reykjavíkurborg bæri allan kostnað af veislunni. „Ég held að það hafi alltaf verið haldið einhvers konar kveðjuhóf þegar æðstu embættismenn borgarinnar hætta,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar. „Mér finnst þetta ekki vera frétt, eða þannig séð. Það hefur tíðkast í áraraðir að kveðja sviðsstjóra með þessum hætti,“ segir Bjarni.

Á gestalista fyrir boðið voru aðalmenn og varamenn í menningar- og ferðamálaráði, starfsfólk menningar og ferðamálasviðs, stjórn Höfuðborgarstofu og fyrrverandi formenn ráðsins á borð við Einar Örn Benediktsson, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Þórólf Árnason og Óttar Proppé heilbrigðisráðherra. Þá voru á gestalista ýmsir innan sem utan borgarkerfisins sem hafa eitthvað með ferðamál og menningu að gera svo sem Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og margir fleiri. Alls um sjötíu manns.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að sér þyki veislan dýr. „Mér finnst mjög eðlilegt að kveðja fólk og sýna því tilhlýðilega virðingu fyrir vel unnin störf en mér finnst þetta dýrt. Það kemur mér verulega á óvart hvað þetta er dýrt.“

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Vinstri grænna, segir eðlilegt að gera vel við starfsfólk og kveðja með táknrænum hætti. „Auðvitað má spyrja sig hvort það megi ekki spara þarna líka og hvort það megi ekki fækka svona veislum. Það væri væntanlega það fyrsta sem fengi að fjúka ef það harðnar í ári að verja peningum í slíkt.“

Líf bendir á að Höfði sé einnig notaður í annars konar tilgangi, svo sem til að veita verðlaun eða við opinberar heimsóknir.

„Það má alltaf vanda sig og velja vel hvað er við hæfi hverju sinni. Við fáum yfirlit yfir veislur sem eru haldnar og eftir að ég varð forseti borgarstjórnar hef ég sérstaklega beðið um að fá yfirlit yfir kostnaðinn. Ég bið um rökstuðning í hvert sinn ef þær eru mjög dýrar. Við reynum að fylgjast með þessu og það hlýtur að verða að eiga sér stað einhver rýning, að þetta sé vel valið og vandað og þarna sé ekki eitthvert bruðl.“ 

Sundurliðaður kostnaður veislunnar

  • Snittur og pinnamatur:  195.600 kr.
  • Drykkjarföng:  53.168 kr.
  • Framreiðsla:  46.040 kr.
  • Gjöf:  10.000 kr.
  • Blóm:  18.228 kr.
  • Tónlist/skemmtiatriði:  70.000 kr.
  • Samtals: 393.036 kr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×