Erlent

Efnarannsókn á tönnum Ísdalskonunnar færir lögregluna nær uppruna hennar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lík konunnar hafði verið brennt og hefur aldrei tekist að bera kennsl á það.
Lík konunnar hafði verið brennt og hefur aldrei tekist að bera kennsl á það.
Efnarannsókn sem gerð var á tönnum Ísdalskonunnar hefur fært norsku lögregluna nær uppruna þessarar dularfullu konu sem fannst látin í skóglendi skammt frá Bergen fyrir tæpri hálfri öld. Búið var að brenna lík hennar og hefur aldrei tekist að bera kennsl á hana en málið var opnað á ný um áramótin. Það er jafnan talið dularfyllsta sakamál sem upp hefur komið í Noregi enda hefur aldrei verið upplýst hvað kom fyrir konuna eða hver hún er.

Efnarannsóknin nú var gerð á þremur tönnum úr konunni af vísindamanni í Ástralíu, Jurian Hoogewerff, í háskólanum í Canberra. Hann sérhæfir sig í því að efnagreina tennur með það að markmiði að finna út hvaðan úr heiminum þær koma.

Áður höfðu DNA-rannsóknir leitt í ljós að Ísdalskonan er að öllum líkindum evrópsk en rannsóknir sem gerðar voru á skrift hennar benda til að hún hafi mögulega lært að skrifa í Frakklandi.

Efnarannsóknin á tönnunum nú gefur hins vegar nákvæmar til kynna hvaðan hún getur verið þar sem vísindamaðurinn hefur búið til líkindakort sem sýna þau svæði þar sem líklegast er að Ísdalskonan hefur verið sem barn og unglingur.

Að því er fram kemur í frétt NRK mun rannsóknarteymið nú einbeita sér að því að safna hugsanlegum upplýsingum um konuna frá Frakklandi og Þýskalandi í samræmi við niðurstöður efnarannsóknarinnar. Þannig benda niðurstöður rannsóknarinnar til nokkurra afmarkaðra svæða í Frakklandi.

Á meðal þess sem kemur fram í niðurstöðunum er mikil svörun við landamæri Þýskalands og Frakklands. Þá kemur í ljós að Ísdalskonan hefur flutt á milli landa sem barn eða unglingur, að öllum líkindum frá Austur-eða Mið-Evrópu til Vestur-Evrópu. Mögulega var það á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Um síðustu áramót fjallaði fréttastofa 365 ítarlega um mál Ísdalskonunnar en umfjöllunina má nálgast hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×