Körfubolti

Draymond Green vill alls ekki vera líkt við Charles Barkley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Draymond Green fagnar.
Draymond Green fagnar. Vísir/Getty
Draymond Green er óhræddur við að láta allt flakka, hvort sem það er við samherja, mótherja, áhorfendur eða blaðamenn. Hann mótmælir því hinsvegar harðlega þegar honum er líkt við Sir Charles Barkley.

Draymond Green var með 13,8 stig, 9,5 fráköst, 7,5 stoðsendingar og 4,3 varin skot að meðaltali í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þegar Golden State Warrioirs liðið sló út Portland Trail Blazers 4-0.

Green þykir líklegur til að vera kosinn besti varnarmaður ársins í NBA-deildinni en þar koma samt fleiri öflugir varnarmenn til greina.

Í aðdraganda fyrsta leik Golden State og Utah Jazz í undanúrslitum Vesturdeildarinnar var Green spurður hvort hann væri nútímaútgáfan af Sir  Charles Barkley. ESPN segir frá.

„Alls ekki. Ég er nútíma Draymond Green,“ svaraði Draymond Green og bætti auk þess við nokkrum blótsyrðum til að leggja áherslu á hneykslun sína. Það þó er engin tilviljun að menn fara bera saman þessa tvo kraftframherja og það ætti svo sem ekki að vera slæmt fyrir Draymond Green að vera líkt við Charles Barkley sem er í Heiðurshöllinni.

„Chuck sagði ykkur öllum á sínum tíma að hann væri engin fyrirmynd. Hann var ekki fyrirmynd mín. Ég var alinn upp í Saginaw í Michigan-fylki og þar er ruslatal hluti af körfuboltanum. Þannig var ég alinn upp og ég þurfti á engum áhrifum að halda frá Charles Barkley,“ sagði Green.

„Mary Babers ól mig upp. Í Babers-fjölskyldunni þá segir þú alltaf þína skoðun. Þetta hefur ekkert með Chuck að gera,“ sagði Green.

„Ég var enginn Charles Barkley aðdáandi þegar ég var að alast upp með fullri virðingu fyrir honum enda var hann frábær leikmaður. Þegar ég var eldri þá horfði ég hinsvegar á leiki með honum því ég vissi að hann var lítill fyrir sína stöðu og ég vildi sjá hvernig hann leysti það. Ég reyndi að bæta því við minn leik en hann hafði engin áhrif á minn leikstíl,“ sagði Green.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×