Íslenski boltinn

Arnar: Hefði notað tíu skiptingar ef það mætti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks.
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks. vísir/ernir
„Við vorum undir á öllum sviðum og sigur KA fyllilega sanngjarn. Hann hefði alveg getað orðið stærri. Það er erfitt að útskýra hvað gerðist en ég er fyrst og fremst svekktur með frammistöðuna. KA-menn voru grimmari og vildu þetta meira,“ sagði Arnar eftir leikinn í kvöld.

„Maður hefði haldið að eftir að hafa verið í sex mánaða undirbúningstímabili og fá að spila á velli sem er í fínu ásigkomulagi að menn myndu koma dýrvitlausir út og selja sig dýrt. KA-menn gerðu það og uppskáru eftir því.“

Breiðablik endaði síðasta tímabil illa en Arnar hefur ekki áhyggjur af því að Blikar komi til leiks á nýju tímabili með það í farteskinu.

„Nei, alls ekki. En ef menn ætla að spila svona þá verðum við í miklu basli - það er alveg ljóst. Ef baráttan er ekki til staðar þá skiptir engu máli hversu góður þú ert í fótbolta.“

Breiðablik endurnýjaði sóknarlínu sína fyrir tímabilið og allir þrír sóknarmennirnir sem voru fengnir byrjuðu leikinn í kvöld, en náðu sér ekki á strik. „Það vantaði meira þéttleika í allt liðið. Varnarleikurinn byrjar með fremsta manni og það er allt liðið sem þarf að hreyfa sig til að skapa færi. Það var mjög lítið um allt slíkt og maður gæti lengi talað um það. Þetta var bara stjörnuhrap - alveg skelfilegt og ljóst að við höfum verk að vinna.“

Andri Rafn Yeoman var tekinn af velli í síðari hálfleik en Arnar segir að það hafi ekki verið vegna meiðsla.

„Hann var einn af mörgum sem var þungur allan leikinn. Hann skoraði vissulega markið en Andri var langt frá sínu besta. Ég hefði svo sem getað valið hvern sem er til að taka af velli - allir voru frekar slakir í leiknum. Ef maður hefði haft tíu skiptingar hefði maður nýtt þær.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×