Skoðun

Hin dýru íþróttafélög

Guðmundur Edgarsson skrifar
Reglulega berast fréttir af foreldrum sem kvarta undan æ hærri kostnaði vegna íþróttaiðkunar barna sinna. Þá er gjarnan viðkvæðið að auka þurfi niðurgreiðslur til skipulegs íþróttastarfs enn frekar. En hvers vegna kosta íþróttir fjölskyldur landsins æ meira þrátt fyrir öll frístundakortin og síaukin fjárútlát skattgreiðenda?

Styrkir auka kostnað

Skýringin er auðvitað sú að íþróttafélögin nýta niðurgreiðslurnar fremur í annað en að koma til móts við efnaminni fjölskyldur. Peningarnir fara í æ glæsilegri aðstöðu og dýrari búnað auk rausnarlegri launagreiðslna til þjálfara. Í ofanálag koma kröfur um fleiri mót og dýrar keppnisferðir, ekki einungis innanlands heldur í síauknum mæli erlendis. Svo mikill myndarbragur er á öllum þessum mótum og ferðalögum að æ stórtækari niðurgreiðslur hrökkva skammt. Foreldrar eru því rukkaðir aukalega, oft um verulegar fjárhæðir. En er hægt að stemma stigu við þessari óheillaþróun?

Gætum hófs og lækkum skatta

Svarið veltur á aðkomu Skattmann. Ef hin árangursdrifnu og útgjaldafreku íþróttafélög eru rekin eins og fyrirtæki á markaði er fátt sem mælir gegn því að þau verði æ öflugri og metnaðarfyllri. Þau geta þá ekki sigað Skattmann á fólk til að borga lungann af kostnaðinum. Ef fólk er hins vegar nauðbeygt til að borga sífellt hærri skatta til að standa undir útþenslustefnu íþróttafélaganna og blautum draumum þeirra um frækin afrek og atvinnumennsku í útlöndum, gegnir öðru máli, ekki einungis út frá hagsmunum skatt­píndra heimila heldur einnig út frá lýðheilsusjónarmiðum.

Ekki verður nefnilega séð að hið dýra, ofurskipulagða og afreksmiðaða íþróttastarf sé uppskrift að bættri heilsu ungmenna til langframa, ef marka má skuggalegar niðurstöður alþjóðlegra rannsókna um æ frjálslegra vaxtarlag landsmanna og óhóflegt pilluát þeirra. Því ætti að stefna að því að íþróttafélögin verði starfrækt í anda ungmennafélaganna þar sem áhersla er lögð á leik og gleði með langvarandi ástundun í huga fremur en hörku og meting. Samhliða ætti að draga úr sköttum og álögum á vinnandi fólk. Það eitt myndi bæta lýðheilsu þjóðarinnar svo um munaði.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×