Enski boltinn

Klopp: Við þurftum smá heppni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool,  fagnar í leikslok.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fagnar í leikslok. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var sáttur eftir 1-0 útisigur á Watford í lokaleik 35. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Frábært sigurmark Emre Can sá til þess að Liverpool fór heim með öllum þrjú stigin sem koma sér afar vel í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

„Þú getur bara rétt ímyndað því hvað mér líður vel. Þetta var erfiður leikur. Við byrjuðum vel og svo þurftum við að taka Phil (Coutinho) útaf. Hann er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur og inn kom Adam Lallana  sem var að koma til baka eftir langa fjarveru,“ sagði Jürgen Klopp við Sky Sports.

„Við vorum þolinmóðir í byrjun, spiluðum fótbolta og reyndum að skapa þegar færi gáfust til þess. Markið var stórkostlegt,“ sagði Klopp. Emre Can skoraði það með hjólhestaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

„Það var ljóst að við þurftum að vinna fyrir þessum stigum og við gerðum það. Það er ekki auðvelt fyrir neitt lið að vinna hérna,“ sagði Klopp.

„Við þurftum smá heppni í kvöld en við unnum fyrir henni. Þeir bjuggu ekki mikið til en það var samt erfitt að verjast þeim. Við urðum að vera varkárir og mér fannst mínir strákar standa sig vel. Ég er sáttur með frammistöðuna,“ sagði Klopp.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×