Íslenski boltinn

KR-vörninni splundrað með sex sendingum | Sjáðu glæsilegt sigurmark Víkinga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Víkingur vann sigur á KR, 2-1, í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í gærkvöldi. Sigurmarkið skoraði hollenski framherjinn Geoffrey Castillion á 73. mínútu.

Þetta var fyrsti sigur Víkinga í Frostaskjóli í tíu ár eða síðan Sinisa Kekic tryggði liðinu öll þrjú stigin sumarið 2007 en það sama ár féll Víkingsliðið niður í 1. deildina.

KR komst yfir með marki Tobiasar Thomsen á níundu mínútu en Dofri Snorrason jafnaði metin á 61. mínútu áður en Castillion tryggði Fossvogsliðinu sigurinn.

Sigurmarkið var virkilega fallegt en Víkingar fóru frá teig í teig á 17 sekúndum með sex sendingum. Boltinn byrjaði hjá Róberti Erni Óskarssyni í markinu en Alan Lowing gaf boltann svo á Alex Frey Hilmarsson sem sneri og renndi honum út á vænginn á Vladimir Tufegdzic. Fyrirgjöfin var góð og Castillion skoraði.







Óskar Hrafn Þorvaldsson, sérfræðingur Pepsi-markanna, var hrifinn af frammistöðu Víkinga og hvernig leikáætlun þeirra gekk upp í Vesturbænum.

„Milos [Milojevic, þjálfari Víkings] fer í svæðin sem myndast í þriggja manna vörnum sem eru á bakvið vængbakverðina. Hann keyrir á þau. Alex Freyr Hilmarsson leggur upp fullt af tækifærum fyrir Túfa að hlaupa í og hann hleypur í þau frábærlega. Við sjáum bara hvernig annað markið var,“ sagði Óskar.

„Víkingarnir voru með plan og þeir náðu að framkvæma það meiriháttar vel. Mér fannst þeir allan tímann fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar stjóra leiknum. Þó þeir væru ekki með boltann voru þeir að stjórna leiknum því KR-ingarnir fengu ekki að gera það sem þeir vildu gera,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Sigurmarkið má sjá hér að ofan en umræðuna úr Pepsi-mörkunum má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×