Íslenski boltinn

Gat dómarinn dæmt jöfnunarmark Stjörnunnar mögulega fimm sinnum af?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn tryggðu sér eitt stig í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla á mánudaginn með því að skora jöfnunarmark sjö mínútum fyrir leikslok.

Nýliðar Grindavíkur komust tvisvar yfir í leiknum og voru búnir að vera yfir nær allan seinni hálfleikinn þegar Daníel Laxdal jafnaði fyrir Garðabæjarliðið.

Lokatölurnar í leiknum urðu því 2-2 en það var samt lítill sigur fyrir nýliða Grindavíkur að ná í stig á móti sterku Stjörnuliði.

Grindvíkingar voru mjög ósáttir með að markið hafi fengið að standa og það er vissulega hægt að nefna nokkrar ástæður fyrir því af hverju dómarinn Guðmundur Ársæll Guðmundsson gat dæmt markið af.

Þegar markið er skoðað betur þá er mögulega hægt að finna fimm ástæður fyrir því af hverju markið var ekki löglegt. Nú er spurning hvort menn sé sammála að um brot eða rangstöðu hafi verið að ræða í þessum fimm atriðum.

Hver og einn getur skoðað upptökuna af markinu og dæmt sjálfur. Ástæðurnar fimm eru hér fyrir neðan en myndbandið má síðan sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Hér eru fimm mögulegar ástæður fyrir því að dæma jöfnunarmarkið af:

1) Hólmbert Friðjónsson brýtur á Grindvíkingnum Gunnari Þorsteinssyni

2) Baldur Sigurðsson brýtur á Grindvíkingnum Brynjari Ásgeiri Guðmundssyni

3) Baldur Sigurðsson er rangstæður þegar Daníel Laxdal skallar boltann áfram [Baldur hindrar svo markvörðinn]

4) Eyjólfur Héðinsson er rangstæður þegar Daníel Laxdal skallar boltann áfram [Eyjólfar skallar svo í slá]

5) Baldur Sigurðsson brýtur á Kristijan Jajalo, markverði Grindavíkur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×