Enski boltinn

Skammakrókurinn prófaður á Englandi á næstu leiktíð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Í skammakrókinn með þig!
Í skammakrókinn með þig! vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið hefur tekið ákvörðun um að prófa skammakrókinn (e. sin bin) í neðri deildum enska boltans á næstu leiktíð. BBC greinir frá.

Skammakrókurinn er notaður í ruðningi en þegar leikmenn þar fá gult spjald þurfa þeir að yfirgefa völlinn í tíu mínútur en fá svo að koma inn á aftur.

Þetta verður prófað í sjöundu deild og neðar auk þess sem skammakrókurinn verður notaður í sunnudagsdeildinni á Englandi sem er mjög vinsæl og í yngri flokkum hjá stelpum og strákum.

Leikmenn þurfa aðeins að fara af velli í tíu mínútur ef þeir fá gult spjald fyrir kjaftbrúk en sama gildir ekki um gul spjöld fyrir tæklingar eða almenn brot.

Ríflega 1.000 félög voru spurð hvort þau væru reiðubúin að taka þátt í þessu verkefni. Á móti sleppa þau við tíu punda sekt fyrir hvert gult spjald á meðan þessi tilraun stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×