Enski boltinn

Mourinho gefst upp í baráttunni um fjórða sætið og hvílir leikmenn á móti Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho leggur allt í sölurnar í Evrópudeildinni.
José Mourinho leggur allt í sölurnar í Evrópudeildinni. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er búinn að gefast upp í baráttunni um fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni en hann vill meina að jafnteflið á móti Swansea í síðustu umferð hafi verið banabitinn í þeirri baráttu.

Manchester United getur enn náð Meistaradeildarsæti með því að vinna Evrópudeildina en liðið er 1-0 yfir í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Celta Vigo eftir sigurmark Marcus Rashford á Spáni í gærkvöldi.

United er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 65 stig, stigi á eftir Manchester City og fjórum stigum á eftir Liverpool en bæði Manchester-liðin eiga fjóra leiki eftir. Liverpool á þrjá leiki eftir.

Þar sem Mourinho er búinn að gefast upp á deildinni ætlar hann að leggja allt í sölurnar í Meistaradeildinni og mæta með sitt besta lið til leiks næsta fimmtudag eins og hann gerði í gærkvöldi. Það þýðir að lykilmenn fá frí í stórleiknum á móti Arsenal á sunnudaginn.

„Ég get ekki notað sama lið og hér í kvöld á móti Arsenal og svo endurtekið leikinn á móti Celta næsta fimmtudag,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi eftir leikinn í gær en myndbrot frá honum má sjá hér.

„Við verðum að vera mannlegir við leikmennina og skynsamir og raunsæir á stöðu okkar í úrvalsdeildinni.“

„Í síðasta leik á móti Swansea fór síðasta tækifærið á að enda á meðal fjögurra efstu í deildinni. Ég mun því hvíla leikmenn á móti Arsenal,“ sagði José Mourinho.


Tengdar fréttir

Sjáðu glæsimark Rashford | Myndband

Marcus Rashford skoraði eina mark leiksins þegar Manchester United bar sigurorð af Celta Vigo í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær.

Mourinho: Þetta er ekki búið

Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, var ósáttur við að Man. Utd skildi ekki vinna Celta Vigo stærra í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×