Skoðun

Að krossa upp á tíu

Ragnhildur Þrastardóttir skrifar
Ég sit í stofu 311. Ég er búin að læra í viku fyrir prófið og búin að standa mig vel yfir önnina. Þetta verður skítlétt, ég meina þetta er bara krossapróf? Sólin horfir lostafull inn um gluggann og óþreyja eftir henni liggur yfir öllum í stofunni. „Þið megið byrja“ segir hvíthærð kona sem ég hef aldrei séð áður. Næstu klukkustundina hefur hún alræðisvald yfir mér og samsetum mínum. Ég heyri hvernig blýantarnir æða um síður stúdentanna í stofunni, hvernig allt sem þeir hafa hlaðið inn á skammtímaminnið lekur yfir mjólkurhvít blöðin.

Krossapróf. Próf sem, samkvæmt Snöru, er tekið með því að setja kross í reiti framan við rétt svör við spurningum. Stundum eru svörin reyndar öll rétt. Samt máttu bara velja einn möguleika. Þann sem er réttASTUR. En þarna fellur form krossaprófsins um sjálft sig. Svarmöguleikar ættu aldrei að vera allir réttir ef aðeins einn kemur til greina. Þetta er ekki eini gallinn á prófum af þessu sauðahúsi. Þau eru gjarnan staðreyndamiðuð, beinast að atriðum eins og því hver sagði hvað, hvaða ártal eitthvað tiltekið atvik gerðist eða hvaða kenning beri hvaða heiti. Á meðan það er gott og gilt að nemendur átti sig á þessum atriðum segja þau lítið um kunnáttu viðkomandi, fremur það hversu góður aðilinn er í að líma lítt nothæfar staðreyndir inn í stundarminnið. Nám á að auka við þekkingu auðvitað fyrst og fremst, en annað mikilvægt hlutverk skólakerfisins er að undirbúa skjólstæðinga sína fyrir atvinnulífið svo þessi þekking nýtist sem allra best. Í framtíðarstarfi er afar ólíklegt að staðreyndaþekking fleyti fólki langt.

Það er ferlega fúlt að vera búinn að leggja sig fram við að læra efni, áhugavert efni jafnvel, virkilega gefa sig allan í það og svo fá ekki að sýna hvað í manni býr. Það er bara happa glappa hvort maður man hvaða ár táknmálsbannið var sett á eða hver fann upp vasareikninn. Á meðan er öll kunnáttan sem hefði möguleika á að flæða út í formi svars við ritgerðarspurningu lokuð inni og þrýstir oftar en ekki svo ofboðslega á flóðgáttirnar að hún flæðir út um augun, ekki blýantinn.

Ég vissi alveg að prófið yrði vonbrigði. Ég fengi ekki að skemmta mér við að greina skilmerkilega frá því hvernig óhlutstæðar hugmyndir hylla sérstöðu Bandaríkjanna og „Vestursins“ en gera lítið úr öðrum menningarheimum. Ég fengi ekki að sýna fram á leikni mína við að ræða um fyrstu og aðra bylgju femínisma eða leiða rök að því hvernig lögmál mismunarins birtist í samfélaginu. Því þannig eru krossapróf í flestum tilvikum, skúffelsi.

„Jæja, hvað á þá til bragðs að taka, ef krossapróf eru svona hræðileg?“ „Nú, það er ekki flókið. Krossar eru ágætir til þess að athuga vitneskju um staðreyndir og eru því prófum alveg að meinalausu að því gefnu að þeir séu notaðir rétt og hafi takmarkað vægi. Það þarf einfaldlega að gera eins og margir afbragðs kennarar gera og kássa saman krossum, ritgerðarspurningum og fleiru, allt eftir hverjum aðstæðum fyrir sig.“

Kæru kennarar og aðrir sem koma að mótun prófa. Leyfið okkur að skína, gefið okkur tækifæri á að gera ykkur stolt af allri vitneskjunni sem þið hafið hjálpað okkur við að komast yfir. Það er kannski meiri vinna að lesa margþrungin svör og rökstuðninga en að setja blöð í skanna, en trúið mér. Við sem nemendur skulum gera þessa vinnu ómaksins verða.




Skoðun

Sjá meira


×