Skoðun

Leynimakk ráðherra

Helmut Hinrichsen skrifar
Lekið hefur í fjölmiðla að til standi að „sameina“ tvo stærstu framhaldsskóla landsins, Tækniskólann og Fjölbrautaskólann við Ármúla. Tækniskólinn er einkarekinn skóli af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík með áherslu á iðnmenntun. Fjölbrautaskólinn við Ármúla er ríkisrekinn skóli með bóknám og starfsmenntun á heilbrigðissviði.

Skólameistari Tækniskólans, Jón B. Stefánsson, upplýsti á dögunum að ráðherra mennta- og menningarmála hefði í febrúar á þessu ári falið skólameisturum beggja skóla að kanna hagkvæmni „sameiningarinnar“. Niðurstöður höfðu legið fyrir síðan í apríl og töldu skólameistarar beggja skóla að hagkvæmt væri að „sameina“ skólana á þeim forsendum sem ráðherra hafði lagt þeim fyrir.

En hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar mati á hagkvæmni? Enginn nema skólameistararnir og nokkrir útvaldir voru upplýstir af ráðherra. Í Bakþönkum Fréttablaðsins þann 6. maí átaldi Sirrý Hallgrímsdóttir, aðstoðarkona fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, þingmann Pírata fyrir að ræða ekki um kosti og galla „sameiningar“ skólanna. En hvernig getur viðkomandi þingmaður rætt hagkvæmni umræddra breytinga þegar efnislegum forsendum er haldið leyndum, jafnvel fyrir starfsfólki og stjórnendum viðkomandi skóla.

Voru skólameistararnir að kanna hagkvæmni í rekstri? Auðvitað er hagkvæmara að vera með stóra hópa en litla. Það er líka hagkvæmara að leyfa ekki nemendum sem eru eldri en 25 ára að stunda nám í ríkisreknum skólum eins og fyrrverandi ráðherra skipaði fyrir og núverandi ráðherra hefur fellt úr gildi. Eða á að meta hagkvæmni með því að taka inn þætti eins og öfluga stoðþjónustu við nemendur, sjálfbæra skólaþróun, umhverfisvitund og margt annað sem Fjölbrautaskólinn við Ármúla er þekktur fyrir?

Fjölbrautaskólinn við Ármúla er vel rekinn skóli og eins sést á úttekt sem gerð var á öllum þáttum skólastarfsins í byrjun vorannar 2017. Starfsandinn er góður og hefur skólinn fengið viðurkenningu sem Fyrirmyndarstofnun árin 2015 og 2016. Skólinn er leiðandi á Íslandi í framboði fjarnáms á framhaldsskólastigi. Er ástæðan e.t.v. sú að ráðherra vilji færa Tækniskólanum vandað og vinsælt fjarnám sem byggt hefur verið upp í Fjölbrautaskólanum við Ármúla?

Eins og nefnt er að framan er erfitt að ræða efnislega kosti og galla breytinga þegar engar upplýsingar liggja fyrir um forsendur þeirra og enginn faglegur undirbúningur hefur átt sér stað. Starfsfólk beggja skóla býr yfir mikilli reynslu sem ætla mætti að skipti miklu máli þegar um svo mikilvægt mál er að ræða þegar einn stærstu skóla landsins er lagður niður.

Ég lýsi eftir upplýsingum frá ráðherra um forsendur málsins og um þá menntastefnu sem forsendurnar byggjast á. Vinnubrögð ráðherra eru ófagleg og lítilsvirðing gagnvart starfsmönnum skólanna, nemendum og foreldrum þeirra.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×