Enski boltinn

Conte: Erum að sýna að við eigum skilið að verða meistarar | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsea-liðið steig í gærkvöldi stórt skref í átt að Englandsmeistaratitlinum eftir 3-0 sigur á Middlesbrough á Brúnni. Chelsea vantar nú bara einn sigur til að tryggja sér endanlega sinn sjötta Englandsmeistaratitil og þann fimmta frá 2005.

Það er hægt að sjá mörkin sem Chelsea skoraði í gær í spilaranum hér fyrir ofan en mörkin í gær skoruðu þeir Diego Costa, Marcos Alonso og Nemanja Matic. Cesc Fabregas kom inn í byrjunarliðið eftir að N'Golo Kante gat ekki spilað vegna meiðsla og Fabregas átti stoðsendinguna á bæði Costa og Matic.

Ítalski knattspyrnustjórinn Antonio Conte er svo gott sem búinn að gera Chelsea að Englandsmeisturum á sínu fyrsta tímabilið með liðið og þessi 47 ára gamli stjóri var kátur með sitt lið í leikslok.

„Þetta er fyrsta árið mitt á Englandi og í mjög erfiðri deild. Núna erum við búnir að taka eitt skref í viðbót í átt að titlinum. Ég er ánægður fyrir hönd minna leikmanna. Þeir eiga þetta skilið. Við erum að sýna það að við eigum skilið að vinna deildina,“ sagði Antonio Conte við BBC.

Chelsea er með sjö stiga forystu á Tottenham og getur tryggt sér titilinn með sigri á West Bromwich á föstudagskvöldið eða ef Tottenham tapar á móti Manchester United á sunnudaginn.

Antonio Conte getur orðið fjórði ítalski stjórinn til að vinna ensku úrvalsdeildina. Hinir eru Claudio Ranieri (Leicester City 2016) , Roberto Mancini (Manchester City 2012) og Carlo Ancelotti (Chelsea 2010). Ítalskir knattspyrnustjórar hafa unnið tvo þá síðustu og fjóra af síðustu átta.


Tengdar fréttir

Kante bestur hjá blaðamönnum

N'Golo Kante, miðjumaður Chelsea, var í dag valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar af blaðamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×