Enski boltinn

Mörkin hans Zlatans Ibrahimovic eru ekki alveg ókeypis fyrir United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatans Ibrahimovic fagnar marki í vetur.
Zlatans Ibrahimovic fagnar marki í vetur. Vísir/Getty
Upplýsingar um launamál Svíans Zlatan Ibrahimovic hafa nú komið fram í dagsljósið en það má finna þær í nýrri þýskri bók sem heitir „Football Leaks: The Dirty Business of Football.“

Samkvæmt þeim er Zlatan Ibrahimovic að fá rúmlega 367 þúsund pund í vikulaun sem jafngildir 50 milljónum íslenskra króna. Kappinn er því að fá sjö milljónir á hverjum einasta degi vikunnar.

Hinn 35 ára gamli Zlatan Ibrahimovic hefur staðið sig mjög vel á sínu fyrsta tímabili hjá Manchester United en hann varð hinsvegar fyrir því óláni að slíta krossband og missir af þeim sökum af lokakafla tímabilsins.

Zlatan Ibrahimovic kom til Manchester United á frjálsri sölu sem gaf félaginu tækifæri til að borga honum enn betur. Það bjuggust þó ekki allir við því að United myndi gera hann að launahæsta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar.

Zlatan skoraði alls 28 mörk og gaf 10 stoðsendingar í 46 leikjum í öllum keppnum með liði Manchester United þar af var hann með 17 mörk í 28 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Mörkin hans Zlatans Ibrahimovic voru mörg en þau kostuðu félagið líka heilmikið því auk launanna þá fékk Svíinn einnig 2,86 milljónir punda í markabónus en það gera rétt tæplega 400 milljónir íslenskra króna.

Mino Raiola, umboðsmaður Zlatans Ibrahimovic og Paul Pogba, hagnaðist rosalega vel af því að Manchester United keypti Pogba frá Juventus. Samkvæmt heimildum fyrrnefndar bókar þá fékk hann 41 milljón punda í eigin vasa eða 5,6 milljarða íslenskra króna.  Það eru ótrúlegar tölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×