Enski boltinn

Pirruðu Cesc Fabregas í beinni útsendingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas.
Cesc Fabregas. Vísir/Getty
Cesc Fabregas átti flottan leik með Chelsea í gærkvöldi og lagði meðal annars upp tvö mörk liðsins í 3-0 sigri á Middlesbrough.

Með sigrinum nánast gulltryggði Chelsea liðið sér enska meistaratitilinn en liðið hefur sjö stiga forskot á Tottenham og getur landað Englandsmeistaratitlinum með sigri á West Brom á föstudagskvöldið.

Fabregas kom óvænt inn í byrjunarliðið hjá Chelsea í þessum leik í gær eftir að N'Golo Kante gat ekki spilað vegna meiðsla. Spánverjinn nýtti tækifærið vel og var maður leiksins. Hann gaf stoðsendingu númer tíu og ellefu á tímabilinu í leiknum eða svo hélt hann að minnsta kosti sjálfur.

Strákarnir í stúdíóinu hjá Sky Sports ræddu við Cesc Fabregas eftir leikinn og það var frekar fyndið þegar David Jones, umsjónarmaður Monday Night Football, sagði að Fabregas fengi bara aðra stoðsendingu sína skráða í opinberri tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar.

Fyrri stoðsending Fabregas í leiknum, á Diego Costa, hafði nefnilega örlitla viðkomu í varnarmanni Middlesbrough, áður en boltinn komst á leiðarenda. Það hefur oft verið nóg til að menn missi stoðsendingu. Gylfi okkar Sigurðsson lenti sem dæmi í því á síðasta tímabili.

Fabregas varð augljóslega pirraður þegar hann heyrði þetta en reyndi sitt besta að halda andlitinu. Hann fékk í framhaldinu verðlaun fyrir að vera besti maður leiksins en það dugði varla til að koma honum í betra skap.

Það má sjá þennan hlut viðtalsins við Cesc Fabregas á Sky Sports hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×