Enski boltinn

Wenger: Það voru engar myndavélar í göngunum fyrir 10 til 15 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn koma út úr göngunum.
Leikmenn koma út úr göngunum. Vísir/Getty
Margir tóku eftir því hversu vel á fór með leikmönnum Arsenal og Manchester United á Eimrates-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Leikmenn Arsenal og Manchester United hafa ekki verið miklir vinir í gegnum tíðina en það virðist allt vera liðin tíð í dag.

Phil Neville og Martin Keown, knattspyrnuspekingar í Match of the Day 2 þættinum á BBC, gagnrýndu þetta háttalag manna í þessum tveimur liðum sem eiga bæði þurfa á öllum mögulegum stigum að halda þessa dagana til að koma sér upp í Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.

Phil Neville tók Arsenal-manninn Nacho Monreal sérstaklega fyrir og sagði að það hafi verið eins og hann héldi að hann væri staddur í skírn en ekki að fara spila fótboltaleik á móti Manchester United.

Arsenal vann leikinn á endanum 2-0 og  Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var spurður út í vinaleg samskipti leikmanna liðanna tveggja í göngunum rétt fyrir svona mikilavægan leik.

„Ég skil vel að þetta hafi komið þeim í settinu á óvart því þetta sást ekki fyrir tíu til fimmtán árum. Svona er þetta bara í alþjóðlegum bolta í dag og það er sem dæmi hægt að sjá þetta fyrir leiki Real Madrid og Barcelona,“ sagði Arsene Wenger.

Wenger viðurkenndi engu að síður að það hafi komið sér á óvart hversu vel á fór með leikmönnum liðanna.

„Þetta kemur samt ekki í veg fyrir að menn mæti einbeittir til leiks. Við erum ekki vön því að sjá svona myndir en þetta bara hluti af nútímafótboltanum. Kannski gerðist þetta líka fyrir tíu til fimmtán árum en þá voru bara ekki myndavélar í göngunum,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×