Íslenski boltinn

Arnar Grétarsson: Viðurkenni að þetta kom mér á óvart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson er án starfs í boltanum.
Arnar Grétarsson er án starfs í boltanum. vísir/stefán
„Mér var bara sagt upp. Það er bara þannig og ekkert öðruvísi,“ segir Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari Breiðabliks, í samtali við Vísi.

Eins og kom fram fyrr í dag var Arnar látinn fara frá Blikum eftir aðeins tvo leiki í Pepsi-deild karla sem töpuðust báðir. Liðið olli vonbrigðum á síðustu leiktíð eftir að lenda í öðru sæti á fyrsta tímabili Arnars sem þjálfari Breiðabliks.

„Ég myndi ekki hætta eftir tvo leiki. Þetta er nýtt Íslandsmet en bara í neikvæðum skilningi. Maður er samt búinn að kynnast ýmsu í boltanum en það eru alltaf ákveðnir aðilar sem taka svona ákvörðun,“ segir Arnar.

Breiðablik tapaði fyrsta leik Pepsi-deildarinnar á heimavelli fyrir KA, 3-1, og tapaði svo fyrir Fjölni á útivelli, 1-0, í gær.

„Auðvitað er maður ekki sáttur með að vera án stiga eftir tvo leiki en leikurinn á móti Fjölni hefði alveg getað fallið með okkur. Við vorum með þrjú stig eftir tvo leiki í fyrra og 2015 þegar við náðum öðru sæti vorum við með þrjú stig eftir þrjá leiki,“ segir Arnar sem er ósáttur með ákvörðun stjórnar Breiðabliks.

„Ég er samt ekkert að velta mér of mikið upp úr þessu. Það gefur augað leið að menn eru ósáttir við árangurinn. Það er enginn rekinn þegar menn eru sáttir. Ég er bara aðeins að melta þetta núna en ég viðurkenni að þetta kom mér á óvart.“

„Þetta er eitthvað sem maður hefur enga stjórn á. Ég verð bara að sætta mig við þetta hvort sem þetta er sanngjarnt eða ekki eða hvernig menn líta á þetta,“ segir Arnar Grétarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×