Körfubolti

Utah sló Clippers út | Boston komið yfir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það þurfti sjö leiki til að finna sigurvegara í viðureign Clippers og Utah.
Það þurfti sjö leiki til að finna sigurvegara í viðureign Clippers og Utah. vísir/getty
Utah Jazz tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA með sigri á Los Angeles Clippers, 91-104, í oddaleik. Utah mætir Golden State Warriors í undanúrslitunum.

Sjö leikmenn Utah skoruðu 10 stig eða meira í leiknum í kvöld. Gordon Hayward var þeirra stigahæstur með 26 stig. George Hill og Derrick Favors komu næstir með 17 stig hvor. Sá síðarnefndi tók einnig 11 fráköst.

DeAndre Jordan var atkvæðamestur hjá Clippers með 24 stig og 17 fráköst. Jamal Crawford kom með 20 stig af bekknum en Chris Paul hefur oft spilað betur. Leikstjórnandinn snjalli var með 13 stig úr 19 skotum og gaf níu stoðsendingar.

Boston er komið yfir gegn Washington.vísir/getty
Boston Celtics tók forystuna í einvíginu við Washington Wizards með 123-111 sigri í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

Isiah Thomas var að venju atkvæðamestur í liði Boston með 33 stig og níu stoðsendingar. Jae Crowder skoraði 24 stig og Avery Bradley var með 18 stig, fimm fráköst, fjórar stoðsendingar og fjóra stolna bolta.

Bradley Beal var með 27 stig í liði Washington og John Wall skoraði 20 stig og gaf 16 stoðsendingar.

Wall varð þar með aðeins annar maðurinn í sögu úrslitkeppninnar sem skorar 20 stig og gefur 15 stoðsendingar fyrir gestalið í Boston. Isiah Thomas, fyrrum leikmaður Detroit Pistons, afrekaði það einnig árið 1985.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×