Innlent

Rútubílstjóri Íslendinga sofnaði undir stýri í Króatíu: "Mikil mildi að ekki fór verr“

Atli Ísleifsson skrifar
Skrámur urðu á rútunni eftir að hún rakst utan í vegrið á króatísku hraðbrautinni. Sævar Skaptason er framkvæmdastjóri Bændaferða.
Skrámur urðu á rútunni eftir að hún rakst utan í vegrið á króatísku hraðbrautinni. Sævar Skaptason er framkvæmdastjóri Bændaferða. Ólafur þór gunnarsson
„Það er mikil mildi að ekki fór verr. Við þetta verður fólkið fyrir sjokki, eðlilega, en það urðu ekki nein slys eða skrámur. Þetta er flokkað sem óþægileg upplifun fólks, til dæmis eins og í flugi, og við erum að bregðast við því,“ segir Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða, um atvik sem varð í gær þegar bílstjóri rútu með 49 Íslendinga um borð sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að rútan rakst utan í vegrið á hraðbraut í Króatíu.

Sævar segir að í dag sé verið sé að hafa uppi á öllum í hópnum og bjóða því aðstoð vegna atviksins sem varð þegar verið var að aka hópnum frá Dubrovnik til Porec. „Hópurinn var þarna aka um hraðbraut og bílstjórinn hefur greinilega dottað sem varð til þess að rútan rekst utan í vegrið. Upp úr því stoppar hann. Það urðu einhverjar rispur á bílnum en það varð ekki neinn beinn árekstur.“

Mbl greindi fyrst frá málinu. Sævar segir að rútan hafi ekki getað verið á meira en 90 kílómetra hraða þar sem þær eru þannig búnar að þær geti ekki farið hraðar. „Þegar svona gerist þá er fólki brugðið. Við skiljum það mjög vel. Það er hvíldardagur í dag og svo kemur nýr rútubílstjóri sem keyrir hópinn til Salzburg í Austurríki þar sem hann verður tvær nætur og flýgur svo heim á sunnudaginn. Í morgun var góður tónn í fólki og veðrið gott.“

Rétt að halda áfram með sama bílstjóra

Sævar segir að umræddur bílstjóri sé Þjóðverji og starfi á vegum þýsks fyrirtækis sem Bændaferðir hafa lengi átt í viðskiptum við. Eftir að bílstjórinn stöðvaði rútuna fóru farþegar út, en skömmu síðar var ferðinni haldið áfram. Sævar telur að rétt hafi verið að halda áfram með sama bílstjóra, þar sem langan tíma hefði tekið að bíða eftir nýjum og engar aðstæður voru fyrir farþega að bíða á hraðbrautinni í lengri tíma.

Aðspurður um að farþegar hafi verið beðnir um að setja ekkert um atvikið á Facebook, segist Sævar ekki vita hvernig það hafi komið til. „Það er aukaatriði í sjálfu sér þar sem fólk setur að sjálfsögðu það á Facebook sem það langar til. Þetta er ekkert feimnismál hjá okkur. Þetta er atvik sem gerist og verkefnið hjá okkur er að vinna úr því gagnvart fólkinu og tryggja að ferðin verði áfram ánægjuleg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×