Enski boltinn

Kante valinn bestur af leikmönnum deildarinnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kante hefur verið yfirburðamaður á miðju Chelsea í vetur.
Kante hefur verið yfirburðamaður á miðju Chelsea í vetur. Vísir/getty
N'Golo Kanté, leikmaður Chelsea og franska landsliðsisn, var í dag valinn leikmaður ársins af leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar (PFA) en hann er fjórði franski leikmaðurinn sem hlýtur þessi verðlaun.

Kanté sem gekk til liðs við Chelsea frá ensku meisturunum í Leicester City síðasta sumar hefur slegið í gegn á Brúnni en hann hefur komið af sama krafti og með sömu yfirferð inn á miðjuna hjá Chelsea og hefur smellpassað inn í leikkerfi Antonio Conte.

Var þetta annað árið í röð sem Kanté er tilnefndur en hann horfði á eftir verðlaununum til liðsfélaga síns, Riyad Mahrez, á síðasta ári en hann hefur bæði tímabil sín í ensku úrvalsdeildinni komið til greina sem leikmaður ársins.

Var talið að svo gæti aftur farið að liðsfélagi Kante yrði valinn en Eden Hazard sem vann verðlaunin fyrir tveimur árum var helst nefndur í því samhengi.

Liðsfélagarnir voru einu tveir leikmenn Chelsea sem voru tilnefndir til verðlaunanna en aðrir leikmenn voru Harry Kane, Romelu Lukaku, Alexis Sanchez og Zlatan Ibrahimovic.

Er Kante fjórði franski leikmaðurinn sem er valinn besti leikmaður deildarinnar á eftir Eric Cantona (1994), David Ginola (1999) og Thierry Henry (2003-2004).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×