Innlent

Foreldrar á Ólafsfirði útiloka ekki áframhaldandi mótmæli

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá Ólafsfirði.
Frá Ólafsfirði. Vísir/GK
Aðeins einn þriðji nemenda við Grunnskóla Fjallabyggðar á Ólafsfirði mætti í skólann í morgun. Ástæðan er mótmæli foreldra við fyrirætlanir bæjaryfirvalda um að kennsla í yngri deild skólans færist til Siglufjarðar frá og með næsta hausti.

Tilkynnt var um forföll 57 nemenda í morgun en alls stundar 91 nemandi nám í skólanum á Ólafsfirði. Eðlileg mæting var á Siglufirði, samkvæmt upplýsingum frá skólanum.

Hugsanlegt að mótmælum verði framhaldið

Hildur Gyða Ríkharðsdóttir, ein þeirra sem að mótmælunum standa, segist ekki útiloka að börnin verði áfram heima á morgun og jafnvel næstu daga. Ákvörðun þess efnis verði tekin á fundi foreldra klukkan 16 í dag.

„Ég efast um að börnin verði send í skólann á morgun en við ætlum að hittast í dag og ræða framhaldið,“ segir Hildur í samtali við Vísi.

Meirihluti bæjarstjórnar Fjallabyggðar samþykkti 18. apríl síðastliðinn að börn í 1. til 5. bekk á Ólafsfirði þurfi frá og með næsta hausti að sækja nám á Siglufirði. Það er um 16 kílómetra akstur og eru foreldrar ósáttir við að hafa ekki fengið að vera með í ráðum við ákvarðanatökuna.

„Það hafa ekki komið nógu góðar skýringar á því af hverju þetta er betra. Af hverju vilja þau skipta þessu svona upp? Er það sparnaður? Hver eru rökin? Á þetta að hafa góð áhrif á frammistöðu nemenda í námi eða jákvæð áhrif á fjárhagslega stöðu bæjarins? Er nokkuð verið að hrófla við öllu fyrir kannski eitthvað sem síðan á ekki að hafa neitt gott í för með sér,“ sagði Hildur í samtali við Vísi í gær.

Aðalfundur foreldrafélagsins verður haldinn 3. maí. Hildur segir að bæjarfulltrúar verði boðaðir á fundinn og beðnir um að sitja fyrir svörum vegna málsins.

Úrbóta þörf

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum gegn einu á fundi bæjarstjórnar. Hún kveður á um sameiningu allra skólastiga grunnskólans þannig að samkennslu í 1. til 4. bekk í báðum bæjarkjörnum verði hætt og að frá og með haustinu 2017 muni 1. til 5. bekk verða kennt í húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði. Þá verði  6. til 10. bekk kennt í húsnæði skólans á Ólafsfirði.

„Niðurstaða ytra mats á starfi Grunnskóla Fjallabyggðar sem unnið var árið 2016 kallar á viðbrögð og úrbætur en samkvæmt því er námsárangur nemenda ekki viðunandi og samþætta þarf betur kennslu á yngsta stigi. Einnig er mikilvægt að bregðast við brottfalli nemenda á unglingastigi úr tónlistarnámi,“ segir í bókun meirihlutans.

Jón Valgeir Baldursson, varabæjarfulltrúi B lista, greiddi einn atkvæði gegn ákvörðuninni og lagði til að kosning færi fram meðal íbúa Fjallabyggðar í næstu sveitarstjórnarkosningum.

„Flokkarnir töluðu um íbúalýðræði fyrir síðustu kosningar,“ sagði Jón Valgeir í bókuninni og bætti við: „Ég tel rétt að frekari fyrirhugaðar breytingar verði gerðar í breiðri sátt við íbúa Fjallabyggðar og þá sérstaklega þeirra barnafjölskyldna, sem eiga börn á grunnskólaaldri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×