Skoðun

Hvað er góður skóli?

Hulda María Magnúsdóttir skrifar
Ég er kennari. Grunnskólakennari. Ég vinn við það að kenna unglingum samfélagsfræði og reyni eftir bestu getu að sinna því starfi af metnaði, áhuga og einlægni. Nú er ég í 5. skipti á mínum 10 ára kennaraferli að útskrifa umsjónarnemendur mína úr 10. bekk og að sjálfsögðu erum við að ræða um næsta vetur, framtíðina.

Hvað ætla nemendur að gera að loknu grunnskólanámi? „Komast inn í góðan skóla“ er voða algengt svar. Gjarnan fylgir upptalning á einhverjum skólum. Frá fyrstu svona umræðunni minni hef ég farið eftir ákveðinni línu. Góður skóli er sá skóli sem er góður fyrir þig, sá skóli sem hentar þér best. Það er ekki flóknara. Ennþá er ég að taka sömu umræðuna, fara með sömu rulluna. „Ekki horfa á það hvað skólarnir heita. Byrjið á að hugsa hvort þið viljið fara í bóknám eða verknám. Ef bóknám hvort þá í bekkjarkerfi eða áfangakerfi? Ef verknám þá hvaða verknám? Farðu í þann skóla sem er á þínu áhugasviði. Ef þú vilt verða viðskiptafræðingur liggur vel við að fara í Verslunarskólann en fyrir þann sem vill verða bifvélavirki væri Verslunarskólinn afar slakur kostur.“ Það er nefnilega svo mikilvægt að velja ekki skóla út frá einhverju nafni eða einhverri stöðu heldur þann skóla sem mætir þörfum og áhugasviði nemandans.  

Þessi lenska að gera bóknámi oft hærra undir höfði en verknámi, sem að mínu viti er ekki bara bundin við Ísland, er án efa áhrifavaldur í því að við glímum við skort á iðnaðarmönnum. Þessi hugmyndafræði sem virðist vera ríkjandi, að stúdentspróf og háskólapróf séu eina rétta leiðin. Það virðist líka einhvern veginn vera orðræðan að þeir sem eru klárari fari í bóknám, hinir fari í verknám. Sjálf hef ég oftar en einu sinni lent í rökræðum um slíkt og það gerir mig alltaf jafn reiða!

Það er talað um einstaklingsmiðað nám, mismunandi styrkleika, „enginn er góður í öllu, allir eru góðir í einhverju“ en raunin er svo önnur. Ég hef heyrt af nemendum sem veigra sér við að sækja um verknám þar sem þeir vilja ekki fá á sig einhvern stimpil, klárir krakkar sem fara bóknámsbrautina vegna utanaðkomandi pressu. Ég hef heyrt fleiri en eitt foreldri tala um að „auðvitað er mikilvægt að hafa iðnaðarmenn, einhverjir þurfa að sinna þessum störfum en ekki mitt barn.“ Þá opna ég venjulega munninn og læta í mér heyra (ekki að hann sér almennt lokaður og þegjandi svo sem).

Stundum þegar ég ræði þetta, og fólk þekkir ekki minn bakgrunn, telur það mig bara vera einhverja bitra gellu sem gekk illa í skóla og er á móti kerfinu. Þvert á móti þá gekk mér mjög vel í skóla, ég er stúdent frá einum af „vinsælu skólunum“ og með þrjár háskólagráður, allt voða bóklegt og innrammað í normið. Það breytir því ekki að ég met verknám bróður míns ekkert minna en allt mitt bóknám og að sama skapi met ég bóknámið mitt ekkert minna en verknámið hans. Við höfum ólíka hæfileika, ólík áhugasvið.

Þetta snýst nefnilega um það, hvar hæfileikar manns og áhugasvið liggja, ekki hvaða stimpill er heppilegastur. Þó að þessi stutti pistill muni líklega ekki breyta hugarfari þjóðar vona ég samt sem áður að hann veki einhverja, nemendur, foreldra, kennara, alla til umhugsunar. Hvernig menntasamfélag viljum við hér á Íslandi? Viljum við einsleitt þramm í átt að bóknámi eða fjölbreytta möguleika þar sem við metum fólk jafnt að verðleikum hvort sem það er klárt á bókina eða hagt í höndunum eða jafnvel hvort tveggja. Því það getur bara líka alveg verið þannig.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×