Innlent

Rússar grunaðir um að lokka íslenskar stúlkur til Kanada

Snærós Sindradóttir skrifar
Til stóð að fljúga með íslensku stúlkurnar út í gær svo þær gætu sinnt verkefninu. Áttu að hafa með sér fína kjóla og há laun stóðu til boða.
Til stóð að fljúga með íslensku stúlkurnar út í gær svo þær gætu sinnt verkefninu. Áttu að hafa með sér fína kjóla og há laun stóðu til boða. vísir/eyþór
Viðvörunarbjöllur hringdu hjá íslenskum módelskrifstofum vegna rússnesks fyrirtækis sem vildi fá ungar íslenskar konur til Kanada, með skömmum fyrirvara og gegn hárri greiðslu, fyrr í vikunni. Mjög var á reiki hvert verkefni stúlknanna væri í raun og veru en til stóð að fljúga út í gær og klára verkefnið í dag.

Lögreglan varaði við því að þiggja slík boð á Facebook-síðu sinni á þriðjudag og biðlaði til þeirra stúlkna sem fyrirtækið hefði rætt við undanfarna daga að setja sig í samband við lögregluna. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur lögregla litlar upplýsingar í málinu.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir
„Við fengum tölvupóst frá rússneskri módelskrifstofu þar sem beðið var um stúlkur fyrir einhverja kynningu í Kanada hjá kúnna á vegum skrifstofunnar. Þær áttu að vera í flottum kjólum og fá borgað fullt af peningum. Við sögðum strax nei því við tökum ekki að okkur svoleiðis verkefni,“ segir Andrea Brabin, eigandi Eskimo módelskrifstofu.

Svo þegar kom að því að bóka módelin þá var þetta allt í einu verkefni í Kanada og upplýsingarnar ekki nægar til að við vildum leyfa þeim að ráða módel frá okkur.

Fljótlega var aftur haft samband við Eskimo og sagt að um væri að ræða myndatöku á Íslandi fyrir nýtt rússneskt fatamerki. Óskað var eftir því að prufur yrðu haldnar á skrifstofu Eskimo og við því var orðið. „Svo þegar kom að því að bóka módelin þá var þetta allt í einu verkefni í Kanada og upplýsingarnar ekki nægar til að við vildum leyfa þeim að ráða módel frá okkur. Um var að ræða sömu dagsetningar og á verkefninu sem við höfðum hafnað fyrr.“

Andrea segir að þá hafi viðvörunarbjöllur farið að hringja. Samskiptin hafi verið grunsamleg. „Svo fréttum við að þeir væru að stoppa stelpur úti á götu og þá höfðum við samband við lögreglu og töluðum við öll okkar módel og létum hinar skrifstofurnar vita.“

Andrea Brabin
Svör fyrirtækisins um verkefnið í Kanada hafi verið loðin og augljóst að siglt var undir fölsku flaggi.

Á vefsíðu módelskrifstofunnar TalentBook, sem er í eigu Ásdísar Ránar Gunnarsdóttur, var á mánudag auglýst eftir þremur fyrirsætum eða gengil­beinum fyrir viðburð í Kanada sem fara átti fram 26. til 27. apríl. 

Degi síðar sá Ásdís tilkynninguna frá lögreglunni. „Ég veit ekki hvaða upplýsingar lögreglan hefur um það hvað hafi verið í gangi á bak við þetta en ég held að það sé blásið of mikið í þetta mál. Það hafi ekki endilega verið eitthvað saknæmt í gangi.“

Ásdís segir samt mikilvægt að allir þeir sem fái slík boð passi sig og kanni hvaða fyrirtæki standi að baki boðunum. Sjálf hafi hún átt í samskiptum við téða rússneska skrifstofu og hitt franskt fólk vegna verkefnisins. „Ég ákvað að hafa enga prufu og taka þetta ekki neitt lengra.“ Henni þyki tilkynning lögreglunnar samt fullharkaleg viðbrögð. „Þetta skapar hræðslu og mér finnst svona frekar óábyrgt af þeim að henda þessu út í loftið.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×