Innlent

Heilsugæslan gerir athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í frétt á vef heilsugæslunnar segir ábendingar Ríkisendurskoðunar séu teknar alvarlega en það sé þó mat stjórnenda HH að Ríkisendurskoðun hefði mátt kynna sér málin betur.
Í frétt á vef heilsugæslunnar segir ábendingar Ríkisendurskoðunar séu teknar alvarlega en það sé þó mat stjórnenda HH að Ríkisendurskoðun hefði mátt kynna sér málin betur. Vísir/Stefán
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) gerir nokkrar athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilsugæsluna en skýrslan var kynnt í vikunni.

Í frétt á vef heilsugæslunnar segir ábendingar Ríkisendurskoðunar séu teknar alvarlega en það sé þó mat stjórnenda HH að Ríkisendurskoðun hefði mátt kynna sér málin betur. Segir að í skýrslunni sé að finna ályktanir sem eigi ekki við rök að styðjast og upplýsingar sem séu úreltar og eigi ekki lengur við.

Eitt af því sem fjallað er um í skýrslunni er samskiptavandi innan HH en velferðarráðuneytið hefur ítrekað verið upplýst um þessi vandamál frá árinu 2011 samkvæmt skýrslunni. Ráðuneytið hafi hins vegar ekki gert neitt til að leysa hann en í apríl 2011 lýstu þáverandi yfirlæknar heilsugæslustöðvanna vantrausti á Svanhvíti Jakobsdóttur, forstjóra HH.

Í athugasemdum heilsugæslunnar um skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að innan yfirstjórnar HH líti menn svo á að samskiptavandinn sé hluti af fortíðinni.

„HH hefur farið í gegnum miklar skipulagsbreytingar síðustu misseri og við slíkar aðstæður geta eðli málsins samkvæmt verið uppi mismunandi skoðanir á þeim faglegu áherslum sem leggja ber til grundvallar hverju sinni.  Slíkur skoðanamunur var vissulega til staðar um tíma innan yfirstjórnar HH en er ekki lengur fyrir hendi og því vart þörf á aðkomu velferðarráðuneytisins vegna þessa. Núverandi stjórnendur eru sannfærðir um að skjólstæðingar heilsugæslunnar eigi eftir að njóta góðs af þeim breytingum sem unnið er að innan HH,“ segir á vef heilsugæslunnar.

Þá gerir HH einnig athugasemdir við að Ríkisendurskoðun geri athugasemdir við að bent sé á hættu á hagsmunaárekstrum þegar læknar hjá HH starfa einnig á Læknavaktinni ehf.:

„Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að þetta fyrirkomulag var ákveðið af stjórnvöldum og hafa Sjúkratryggingar Íslands, í umboði velferðaráðuneytis, samið við einkafyrirtækið Læknavaktina um að sinna þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins eftir kl. 17:00 á daginn og um helgar. Þess má geta að þjónustutími heilsugæslustöðva HH er frá klukkan 8:00 til kl. 18:00 alla virka daga. Þjónusta Læknavaktarinnar er til kl. 23:00 alla daga og um helgar skv. fyrrgreindum samningi. Það er því beinlínis hluti af heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu að hafa læknavakt opna á þeim tíma sem heilsugæslan er ekki opin og er vandséð hvernig þeirri þjónustu verði sinnt án aðkomu lækna HH.

RE gerir einnig athugasemd við sérstakt helgunarálag sem læknar hafi fengið fyrir að sinna ekki launuðu aukastarfi og bendir á að dæmi séu um að læknar fái helgunarálag þrátt fyrir að gegna jafnframt störfum hjá Læknavaktinni.  Hér er rétt að benda á að helgunarálag er hluti af kjarasamningi Læknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið og hefur verið hluti af launakjörum lækna í hartnær 20 ár.  Ekki verður séð að HH geti sagt upp þessu fyrirkomulagi einhliða án þess að setja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í uppnám.“


Tengdar fréttir

Sex ára samskiptavandi hamlar heilsugæslunni

Vandi heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu er mikill. Stjórnendur talast lítið við, fjármagni er illa stýrt og hér eru færri heimilislæknar á hvern íbúa en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×