Enski boltinn

Jóhann Berg og félagar þurfa einn sigur í viðbót til að vera öruggir | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fimm leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Fjórir leikir hefjast klukkan 14:00 og klukkan 16:30 hefst svo leikur Crystal Palace og Burnley.

Jóhann Berg Guðmundsson er kominn aftur í lið Burnley eftir meiðsli en íslenski landsliðsmaðurinn kom inn á sem varamaður í 0-2 tapinu fyrir Manchester United um síðustu helgi.

Burnley er fimm stigum frá fallsæti og þarf eins og einn sigur í viðbót til að vera öruggt með sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City liggja væntanlega á bæn og vonast eftir því að Hull nái ekki í stig gegn Southampton. Hull er í 17. sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Swansea sem er í sætinu fyrir neðan.

Englandsmeistarar Leicester City sækja West Brom heim. Bæði lið hafa gefið eftir að undanförnu.

Stoke City fær West Ham í heimsókn en aðeins einu stigi munar á liðunum.

Þá sækir Bournemouth botnlið Sunderland heim á Ljósvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×