Innlent

Tólf vinkonur fögnuðu tæplega þúsund ára afmæli

Anton Egilsson og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Tólf vinkonur í Hveragerði sem eiga það sameiginlegt að verða tæplega þúsund ára á árinu komu nýlega saman til að fagna því að þær eru orðnar áttræðar eða verða áttræðar síðar á árinu. Allar eru þær í félagi eldri borgara á staðnum og hluti þeirra syngur með kór félagsins.

Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður Stöðvar tvö, hitti þessar hressu konur sem tóku meðal annars lagið fyrir hann.

Vinkonurnar sem fagna saman tæplega 1000 ára afmæli á árinu, eða nákvæmlega 960 árum segja gott að vera eldri borgari í Hveragerði enda margt í boði fyrir þann hóp.

Guðlaug Berglind, ein úr hópnum bauð konunum heim til sín þar sem boðið var upp á kaffi og  glæsilegar veitingar. Hópurinn rifjaði upp gamlar minningar og fór yfir málefni líðandi stundar í kaffiboðinu. Allar eru konurnar virkar í félagi eldri borgara.

Guðlaug Berglind segir það ekkert mál að verða orðinn áttræð en hún átti afmæli núna í febrúar.

„Það er enginn munur á því að vera áttræður eða sjötugur ef heilsan er í lagi.“

Sjö af konunum eru í Hverafuglum, kór eldri borgara í  Hveragerði.  Þær tóku að sjálfsögðu lagið saman í 80 ára afmælis vinkonuboðinu eins og sjá má í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×