Enski boltinn

Gylfi hefur ekki misst af mínútu hjá Swansea í sjö mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson lék að sjálfsögðu allar 90 mínúturnar í leik Swansea City í ensku úrvalsdeildinni um helgina þegar liðið varð að sætta sig við tap á móti West Ham.

Gylfi hefur þar með leikið allar 90 mínúturnar í 28 leikjum Swansea í röð eða öllum leikjum liðsins frá og með leik á móti Chelsea 11. september 2016.

Gylfi hefur þar með ekki af einni einustu mínútu hjá Swansea undanfarna 211 daga en á morgun verða nákvæmlega sjö mánuðir síðan að Gylfi var síðast tekinn af velli í bestu deild Evrópu.

Staðan var þá 2-2 og þáverandi knattspyrnustjóri Swansea, Francesco Guidolin, ákvað að setja bakvörðinn Angel Rangel inná til að þétta  vörnina. Swansea náði að halda út og ná í stig á móti verðandi Englandsmeisturum Chelsea.

Gylfi hafði áður jafnað metin í 2-2 með marki úr vítaspytrnu á 59. mínútu leiklsins en þremur mínútum síðar kom Leroy Fer Swansea 2-1 yfir. Chelsea hafði jafnað metin í 2-2 með marki Diego Costa sex mínútum áður en Gylfi var tekinn af velli.

Þessi Chelsea-leikur er aðeins einn af þremur leikjum Swansea í ensku úrvalsdeildinni þar sem Gylfi hefur ekki leikið allar 90 mínúturnar í boði.

Francesco Guidolin tók Gylfa líka af velli í leiknum á undan Chelsea-leiknum þegar liðið tapaði fyrir Leicester City. Gylfi byrjaði síðan á bekknum í fyrsta leik tímabilsins á móti Burnley en kom þá inná sem varamaður hálftíma fyrir leikslok.

Leroy Fer skoraði eina mark þessa leiks átta mínútum fyrir leikslok en þessi 1-0 sigur á Burnley er eini sigurleikur Swansea í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem Gylfi hefur ekki komið að marki.

Gylfi hefur alls leikið 2787 mínútur af 2880 mínútum í boði hjá Swansea City í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili eða 97 prósent af mínútum í boði.

Nú er svo komið að aðeins fimm leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa spilað fleiri mínútur en íslenski landsliðsmaðurinn á þessu tímabili. Þeir eru: Ben Mee hjá Burnley, Steve Cook hjá Bournemouth, Michael Keane hjá Burnley, Gareth McAuley hjá West Bromwich Albion og Ben Gibson hjá Middlesbrough.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×