Enski boltinn

Schneiderlin: Leið eins og vélmenni hjá Man. Utd.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Van Gaal og vélmennið hans.
Van Gaal og vélmennið hans. vísir/getty
Morgan Schneiderlin segir að honum hafi liðið eins og vélmenni undir stjórn Louis van Gaal hjá Manchester United.

United keypti Schneiderlin frá Southampton á 24 milljónir sumarið 2015. Frakkinn var fastamaður hjá United á síðasta tímabili en fékk fá tækifæri hjá José Mouringo á þessu tímabili og var seldur til Everton í janúarglugganum.

Schneiderlin segist ekki hafa notið þess að spila fyrir United.

„Fyrsta tímabilið undir stjórn Van Gaals skildi eftir sig súrt bragð í munninum. Ég naut mín ekki inni á vellinum. Hann gaf mér lítið frjálsræði, jafnvel þótt ég hefði nokkuð mikla reynslu úr ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Schneiderlin.

„Mér fannst ég spila eins og vélmenni hjá honum. Mér var sagt að fara aldrei þangað á vellinum, ekki gera þetta og hitt. Þessi fyrirmæli trufluðu mig talsvert. Þegar leikmaður fer að hugsa í leik hvað þjálfarinn vill að hann geri spilar hann ekki jafn vel. Sérstaklega hjá Manchester United þar sem þú ert undir smásjá fjölmiðla og gagnrýninn er hörð.“

Schneiderlin hefur leikið 10 deildarleiki síðan hann kom til Everton. Sjö þeirra hafa unnist, tveir endað með jafntefli og aðeins einn tapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×